Óli Þ. Harðar og Þorvaldur spillingarfræðingur í hár saman

Samfélagið 3. maí 2024

Þorvaldur Logason, höfundur spillingarbókar um hina alræmdu „Eimreiðarelítu“ og Ólafur Þ. Harðarson prófessor emeritus í stjórnmálafræði senda nú hvor öðrum pillur á opinberum vettvangi.

Ólafur fjallaði um bók Þorvaldar í Kiljunni og „reyndi að segja kost og löst á þeirri athyglisverðu bók“ eins og hann orðar það sjálfur.

Hann virðist telja að grein til höfuðs Ólafi sem Þorvaldur birti á Vísi fyrir nokkrum dögum hafi verið skrifuð vegna þess að Þorvaldur hafði ekki verið ánægður með umsögn Ólafs um spillingarbók Þorvaldar. Þorvaldur sagði meðal annars í grein sinni að Ólafur hefði haldið fram að Katrín hafi „gert það að listgrein að svara ekki spurningum“.

„Þessi fullyrðing er hreinn uppspuni,“ segir Ólafur í færslu á facebook.

„Hins vegar hef ég oft sagt opinberlega að auðvitað þurfi Katrín að svara spurningum um pólitíska fortíð sína í kosningabaráttunni, m.a. um þá staðreynd að afsögn hennar úr embætti forsætisráðherra leiddi til þess að nú situr Bjarni Benediktsson í þeim stól. Ég játa hins vegar á mig þann „glæp“ að hafa ekkert sagt kjósendum um það hvort telja skuli þessa staðreynd lof eða last um Katrínu – né heldur hvort þessi staðreynd eigi að skipta þá einhverju máli þegar þeir kjósa sér forseta. Það er einfaldlega þeirra val.“

Ólafur segist í  áratugi hafa hvatt stjórnmálamenn, fræðimenn og aðra til gagnrýninnar og málefnalegrar umræðu.

„Ég játa líka þann „glæp“ að hafa hvatt til málefnalegrar og kurteislegrar umræðu – frekar en innihaldslausra upphrópana, skítkasts og ósanninda. En opinská, hvöss og gagnrýnin umræða er auðvitað forsenda lifandi lýðræðis.“ Þá segist Ólafur líta á sjálfan sig sem greinandi fræðimann en aðrir hafi kosið að vera boðandi fræðimenn.

Í Vísisgrein Þorvaldar segir að Ólafur hafi gert það að listgrein alla tíð að spyrja ekki spurninga.

„Ólafur og Katrín eru í raun kósí par, hafi þjóðin ekki vitað það. En þau eiga í erfiðleikum með að tala saman svo vit sé í fyrir okkur hin sem hlustum (á RÚV). Því þau trúa ekki á rökræðu um óþægileg átakamál sem gætu valdið afdrifaríkum erjum, hrópum og köllum, ljótu orðfæri, sjokkerandi æsingi, jafnvel meltingartruflunum.“

Þorvaldur segir einnig:

„Ólafur og Katrín eru draumaparið í íslenskum lopapeysu-stjórnmálum, sá sem ekki spyr og sú sem ekki svarar. Best væri að þau kæmu fram í sömu peysunni. Fólk eins og Óli og Kata, valdhafinn og túlkur hans, eru reyndar í ástarsambandi í fjölmiðlum út um allan heim. Þau eiga það sameiginlegt að hafa aldrei bjargað neinu samfélagi frá hættu. Þegar skellur á stríð segja þau úps! Þegar hungursneyð verður segja þau æ! Og þegar þjóðfélag hrynur segja þau, ja hérna hér! Því þegar þau koma fram er aldrei neitt gagnrýnisvert að gerast. Hvöss gagnrýni er ógn við völdin og þeim er aldrei ruggað nema ef forsætisráðherrann er svo óheppinn að lenda í jarðskjálfta í beinni útsendingu.“

Einnig skrifar Þorvaldur: „Einhver gæti haldið því fram fyrir misskilning að það væri ekkert fallegt, siðlegt eða göfugt að þegja um óréttlæti, misnotkun valds eða brot gegn stjórnarskrá en svoleiðis pönkarar skilja ekki reglurnar. Engu skiptir þó þeir til dæmis reyni að nýta sér málið og réttinn til að mótmæla því þegar gefa á auðmönnum íslenska firði til að ala lúsugt norskt laxaóféti. Þeir sem tala um það sem á að þegja um verða aldrei stjórnmálaskýrendur (á RÚV), hvað þá pólitískt ópólitískir forsetar.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí