Ögmundur Jónasson, fyrrum ráðherra, fordæmir hernaðarhyggju íslenskra stjórnvalda og spyr hvort Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfasdóttir líti á sig sem utanríkisráðherra eða í raun varnarmálaráðherra.
Í nýjum pistli á ogmundur.is skrifar Ögmundur um að met hafi verið slegið í Reykjavík undir forystu ríkisstjórnar Íslands á ráðherrafundi í maí á síðasta ári.
„Fluttir voru inn lögregluþjónar erlendis frá til að styðja íslensku lögreglumennina sem aftur voru látnir gista á hóteli í Reykjavík nærri fundarstað – einnig þeir sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu – þegar „leiðtogar“ Evrópuráðsins kæmu saman til að ræða mannréttindamál í Reykjavík. Í engu skyldi sparað svo viðbragðsflýtir gæti orðið á sekúndubrotum. Gasgrímur munu hafa verið við höndina ef skyndiárás yrði gerð með eiturefnum.
Allt varð þetta þó skiljanlegra þegar í ljós kom að á þessum fundi stóð til að stíga stærsta skrefið hingað til svo gera mætti þennan samstarfsvettvang Evrópuþjóða um mannréttindamál að valdastofnun í þjónustu ríkisstjórna; að því sem á ensku kallast geopólitískri stofnun. Þetta var illa ráðið og gæti þá þýtt að samviskan hafi ekki verið upp á sitt besta hjá skipuleggjendum og þess vegna allur varinn góður.“
Síðan segir Ögmundur að eitt það dapurlegasta sem gerst hafi á Íslandi sé „sú kúvending sem orðið hefur í afstöðu til hernaðarhyggju“.
Stjórnmálamenn sem gáfu sig út fyrir að vera talsmenn friðar sneru algerlega við blaðinu í upphafi núverandi stjórnarsamstarfs, opnuðu Ísland fyrir stórfelldri hervæðingu, fóru að kaupa og selja vopn og gera sig gildandi á meðal stríðshauka enda hlotið lof fyrir fylgispekt sína. Allir bjuggust við öllu af hálfu Sjálfstæðisflokks, ýmsu af hálfu Framsóknar en aldrei þessu af hálfu VG.“
„Þess vegna er sá flokkur í sárum,“ segir Ögmundur og syrgir sinn gamla flokk, Vinstri hreyfinguna – grænt framboð og bætir svo við:
„Og síðan fáum við að heyra nú að utanríkisráðherra Íslands sé farin að láta titla sig sem varnarmálaráðherra landsins þegar það þykir eiga við. Bjarni Benediktsson mun hafa byrjað á þessum nýja sið en allt er þetta táknrænt um hvert stefni með land okkar – illu heilli.“

Hann bætir við: „Ekki veit ég hvort það er Þórdís Kolbrún Reykfjörð utanríkisráðherra eða varnarmálaráðherra, sennilega hvort tveggja í senn, sem komin er til Georgíu til að hafa afskipti af innanlandsmálum þar í landi. Því nákvæmlega það er hún að gera og erindið á vegum BNA og handlangaranna í NATÓ, allt samkvæmt löngu ákveðinni forskrift Pentagon og hugveitanna sem starfa á vegum þeirrar stofnunar. Allt saman skjalfest og löngu komið fram eins og þau vita sem hirt hafa um að kynna sér.“