„Norskir auðvaldsmenn hafa lagt stjórnvöld íslands föðurlega niður í firði landsins eins og undirleita brúði á hjónasæng á brúðkaupsnóttu. Á meðan stendur þjóðin öll og horfir á með óbragð í munni yfir þessum undirlægjuhætti.“
Svo skrifar Ester Hilmarsdóttir, landeigandi og bændadóttir úr Þingeyjarsveit, en í aðsendri grein sem birtist á Vísi segir hún að ef frumvarp sem liggur fyrir á Alþingi verði samþykkt þá yrði það stórslys fyrir þjóðina. Hún segir að það yrði hryðjuverk gegn íslenskri náttúru, allt í þágu norskra auðmanna. Ester skrifar:
„Strendur Íslands eru ekki afréttarland Noregs. Þó svo að atburðir síðustu vikna virðist gefa það til kynna. Stjórnvöld hafa ítrekað sniðgengið siðferðislegar skyldur sínar gagnvart landinu og þjóðinni allri. Á meðan ber náttúran og villti laxastofninn tjónið af þessum glæfraskap sem sjóakvíaeldi er og hefur verið þröngvað upp á þjóðina í frekju og yfirgangi norskra auðvaldsmanna og auðsveipum klappstýrum þeirra úr röðum íslenskra stjórnvalda.“
Hún bendir einnig á þá staðreynd að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar sé mótfallinn sjókvíeldi í íslenskum fjörðum. Það hafi kannanir sýnt svart á hvítu. „Fólkið í landinu á að hafa rétt á því að hafa eitthvað um það að segja, hvernig farið er með landið þeirra, eigur og möguleika til afkomu. […] Við höfum öll haft hátt, þessi 70% þjóðarinnar sem er á móti sjókvíeldi í íslenskum fjörðum, en stjórnvöld hafa engu skeytt um mótmæli umráðamanna, bænda eða landeigenda. Þau eru of upptekin við að sinna hagsmunagæslustörfum fyrir norska eigendur sjókvíaeldisfyrirtækja hér á landi. Slík hagsmunagæsla hefur meðal annars komið fram í formi grænskúraðs frumvarps matvælaráðherra, Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, sem siglir kaldhæðnislega undir fána Vinstrihreyfingar – græns framboðs. Þar færir hún sjókvíaeldisfyrirtækjum í eigu norskra auðvaldsmanna yfirráð og ótímabundin afnot af íslenskum fjörðum á silfurfati,“ segir Ester.
Að lokum segir Ester að það sé í raun hagsmunamál allra að frumvarpið verði ekki að lögum. „Aðför að umhverfi okkar er ekki bara aðför að afkomu heldur lífshamingju okkar allra og velferð. En þetta snýst ekki bara um tilfinningalegt gildi heimamanna fyrir jörðum sínum. Það er ekki einkamál heimamanna að koma í veg fyrir slíkar framkvæmdir, heldur hagsmunamál allra landsmanna að vernda náttúruna okkar og setja valdamönnum stólinn fyrir dyrnar.“
Pistil hennar má lesa í heild sinni hér.