Eftir að Palestínumenn fögnuðu á götum úti í gær vegna vonar um vopnahlé á Gaza greip Ísraelsher til aðgerða í gærkvöld og ruddist inn í Rafah við landamæri Egyptalands og Gaza. Ísraelski herinn drap í nótt tugi fólks sem þeir segja hryðjuverkamenn. Um milljón Palestínumenn eru í Rafah.
New York Times segir að göng og gangaop hafi fundist við landamærin.
Bandaríkjamenn hafa goldið varhug við að Ísraelsmenn létu til skarar skríða í Rafah.
Vígin í nótt eru salt í sár þeirra sem töldu að hyllt gæti undir vopnahlé.
Yfir 30 þúsund manns hafa verið drepin á Gaza.
Sjö af hverjum tíu föllnum fórnarlömbum eru konur og börn.
Yfir 1,7 milljónir manna, helmingur börn, hefur þurft að yfirgefa heimili sín. Íbúar Gaza standa frammi fyrir matarskorti og hungursneyð. Fjögur af hverjum fimm heimilum skortir öruggt og hreint vatn. 3,1 milljón manns eru í neyð á landsvísu.
Í kvöld fara fram samstöðutónleikar í Háskólabíói til stuðnings Palestínu. Á sama tíma syngur Hera Björk Þórhallsdóttir í undankeppni Evróvisjón í Malmö fyrir Íslands hönd.
Hvatt hefur verið til sniðgöngu vegna þátttöku Ísrael í keppninni vegna voðaverkanna á Gaza sem líkt hefur verið við þjóðarmorð.