Hryllingurinn á Gaza mun aðeins versna á næstu mánuðum og árum ef marka má spár nýrrar greinar í læknavísindaritinu Lancet. Óbein dauðsföll af völdum stríðsins og eyðileggingarinnar gætu hið minnsta þrefaldað og allt að fimmtánfaldað fjölda dauðsfalla.
Tala látinna á Gaza frá því að stríðið braust út í október 2023 stendur nú í tæplega 38 þúsund manns. Í grein Lancet er samanburður annarra nýlegra stríða og átaka notuð til að spá fyrir um óbeinu dauðsföllin sem gjarnan verða vegna hruns innviða svo sem heilbrigðisþjónustu, fæðuöryggis og aðgangs að hreinu vatni ásamt öðrum ástæðum.
Þannig hafa óbein dauðsföll af völdum stríða og átaka í nútímasögunni valdið þrisvar til fimmtán sinnum fleiri óbeinum dauðsföllum heldur en beinum. Greinin í Lancet segir að með íhaldssömu mati á fjórum óbeinum dauðsföllum fyrir hvert beint dauðsfall, má áætla að tala látinna á Gaza geti náð allt að 186 þúsund manns. Miðað við mannfjöldatölur á Gaza frá 2022, um 2,4 milljónir, segir í greininni að hlutfall látinna af íbúafjölda gæti þannig náð á milli 7-9%.
Sé verstu tölunum beitt má sjá að tölur látinna gætu þannig náð allt að 600 þúsundum ef miðað er við fimmtánföldun óbeinna dauðsfalla. Það yrði þá fjórðungur þjóðarinnar sem myndi hafa látið lífið af völdum þjóðarmorðsins.
Töluverð óvissa ríkir um framhaldið á Gaza enda standa viðræður enn yfir um mögulegt vopnahlé. Þá eru aðrir óvissuþættir hvernig, hvenær og hver mannúðarstoðin verður í framtíðinni og hvernig því verður hagað að endurreisa innviði á svæðinu og hversu fljótt það mun takast. Hungursneyð og vatnsskortur hafa þegar orðið raunin, en langvarandi ástand af því tagi ásamt möguleikanum á sjúkdómsfaröldrum geta ásamt hinum þáttunum ýmist margfaldað eða takmarkað óbein dauðsföll.
Greinin nefnir þar að auki að tala beinna dauðsfalla er líka vanmetin, þar sem gríðarleg eyðilegging borga og bygginga víða um Gaza þýðir það að þúsundir séu að öllum líkindum grafin undir rústum. Sú tala var metin á rúmlega tíu þúsund látna að auki í febrúar, sem hefur vafalaust aðeins hækkað síðan.
Í lokin nefna höfundar greinarinnar líka mikilvægi þess að eyðileggingin, skali hennar og eðli, verði skráð gaumgæfilega. Það sé eina leiðin til að sýna hin sanna kostnað stríðsins, bæði fyrir sögubækurnar en líka fyrir sögulega ábyrgð þeirra sem ollu eyðileggingunni.