Hjálmtýr Heiðdal sem fer fyrir félaginu Ísland-Palestína segir að íslensk yfirvöld hafi ekkert gert til að stöðva þjóðarmorð Ísraela á Gaza.
Amnesty International hefur birt skýrslu sem sýnir ótvírætt að Ísraelsher fremur þjóðarmorð á Gaza. Alþjóðadómstóllinn hefur beint þeim tilmælum til ríkja SÞ að vinna með öllum ráðum gegn mögulegu þjóðarmorði og ólöglegu hernámi Ísraels á Vesturbakkanum og Gaza.
„Íslensk yfirvöld hafa ekkert aðhafst til þess að reyna að stöðva þjóðarmorðið,“ segir Hjálmtýr.
„Á tyllidögum segja íslenskir stjórnmálamenn að Ísland geti haft áhrif – og bent er á frelsisbaráttu Eystrasaltslandanna. Og ekki stendur á stuðningi við Úkraínumenn, bæði pólitískum og efnahagslegum,“ segir Hjálmtýr.
„Yfirlýsingar starfandi utanríkisráðhera Þórdísar Kolbrúnar sýna stuðningin sem íslensk yfirvöld veita Ísrael í raun og samsekt þeirra með Ísrael,“ segir Hjálmtýr og bætir við: „Það er það sem er óviðunandi.“