Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir er hvergi hætt að tjá sig um menn og málefni þótt forsetakosningu sé lokið.
„Bjarni Benediktssson getur ekki verið forsætisráðherra þjóðarinnar. Það er siðlaust og rangt. Hann starfar gegn hagsmunum þjóðarinnar en fyrir þá sem eiga og ráða í íslensku samfélagi. Ríkasta fólkinu,“ skrifar Steinunn Ólína í nýjum pistli.
„Hann ber mikla ábyrgð á siðvillu þeirri sem breiðist út um íslenskt samfélag. Hans störf snúast nær eingöngu um sérhagsmunagæslu og arðrán á þjóðareignum. Hann gerir það hversdagslegt að svindla, pretta, meiða, ljúga og stela. Þetta er ólíðandi ómenning sem vegur að heilbrigðu hugarfari í samfélaginu,“ segir hún.
„Sjálfstæðisflokkurinn getur aldrei orðið frískur með síbrotamanninn Bjarna Benediktsson innbyrðis.“
Einnig bendir Steinunn Ólína á að fréttamenn Ríkisútvarpsins hafi í tvígang haldið því fram við hana í viðtölum að Bjarni hafi verið kosinn í starf forsætisráðherra.
„Þetta er einfaldlega rangt og málflutningur fréttamanna óboðlegur. Íslensku þjóðinni þvert á móti blöskrar að Bjarni sitji í þessu embætti. Þjóðin brást við stólaskiptunum með undirskriftalista tæplega 45.000 manns honum til höfuðs sem stjórnvöld og forseti höfðu að engu.“
Hún bætir við: Bjarni er forsætisráðherra fyrir tilstuðlan fyrrum forsætisráðherra í óþökk þjóðarinnar. Þjóðin svaraði fyrir sig í forsetakosningum nýafstöðnum svo ekki er um að villast.“
Vera Bjarna í starfi forsætisráðherra er einfaldlega siðlaus og særandi fyrir almenning í landinu að hennar sögn.
„Hvað hugsar Svandís Svavarsdóttir eftir að sjálft Ríkisútvarpið og ríkisstyrktir fjölmiðlar vógu að lýðræðinu í aðdraganda forsetakosninga? Þegar sérhagsmunaöflunum mistókst þrátt fyrir yfirgengilega grimmd og ósvífni svo ekki sé talað um fjáraustur sem þjóðinni blöskraði að kaupa sjálft forsetaembættið.“