Skrifstofa Eflingar stéttarfélags er meðal þeirra vinnustaða sem tóku þátt í vinnustaðakönnuninni Fyrirtæki ársins 2024, sem Gallup framkvæmir árlega. Nánast allir mældir þættir hækkuðu markvert milli ára og er heildareinkunn vinnustaðarins hærri en meðaleinkunn annarra sambærilegra vinnustaða.
Í frétt á heimasíðu Eflingar segir að einkunn Eflingar hafi hækkað mest milli ára þegar spurt var um ímynd Eflingar alls 0,57 stig. Þá jókst ánægja með stjórnun á vinnustaðnum verulega, um 0,45 stig milli ára. Enn fremur jókst ánægja og stolt yfir vinnustaðnum um 0,37 stig milli ára.
Hæst skorar skrifstofa Eflingar þegar spurt er um jafnrétti, og fær heildareinkunnina 4,62 á kvarðanum, sem er eilítil hækkun frá fyrra ári. Heildareinkunn vinnustaðarins er 4,33 og hækkar um 0,23 stig milli ára.
Í könnuninni var einnig spurt hvort starfsfólk teldi Eflingu vera fjölskylduvænan vinnustað og er niðurstaðan þar mjög ánægjuleg eftir því sem fram kemur.
Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður Eflingar.