„Stjórnarandstaðan sameinuð um breytingar í þágu öryrkja!,“ skrifar Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, á Facebook. Hann greinir frá því að að allir flokkar sem sitja í velferðarnefnd Alþingis, fyrir utan stjónarflokkanna, krefjast þess að örorkufrumvarp sem ríkisstjórnin hyggst keyra í gegnum þingið nú á lokametrum þess verði aðlagað að þörfum og aðstæðum öryrkja.
„Þetta snýst um að enginn öryrki verði skilinn eftir. Og það gleður mig að greina frá því að fulltrúar allra stjórnarandstöðuflokka í velferðarnefnd Alþingis standa saman að breytingartillögum við frumvarp ríkisstjórnarinnar um endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu. Markmiðið er að knýja fram breytingar í krafti samstöðu. Það eru ýmis skref í rétta átt í frumvarpinu – en ég hef einnig bent á stórhættulega ágalla sem verður að laga. Með aðstoð ÖBÍ og Þroskahjálpar höfum við þegar náð fram ákveðnum breytingum,“ útskýrir Jóhann Páll.
Hann segir að það séu helst fimm atriðii sem verði að breyta áður en frumvarpið fær að fara í gegn. Þær breytingartillögur hljóða svo:
„(1) Fjárhæð heimilisuppbótar hækki svo enginn öryrki verði skilinn eftir.
(2) Öryrki í atvinnuleit fái aukið svigrúm til að finna starf við hæfi án þess að virknistyrkur falli niður.
(3) Skerðing á örorkulífeyri vegna fjármagnstekna maka verði afnumin.
(4) Enginn öryrki með örorkumat verði þvingaður í hið nýja „samþætta sérfræðimat“.
(5) Alþingi fái skýrslu frá ráðherra um útfærslu á samþættu sérfræðimati – sem á að koma í stað örorkumats en er enn algjörlega óútfært.“
Hann segir stjórnarandstöðuna hafa átt gott samstarf undanfarið innan velferðarnefndar til að koma þessum lágmarks breytingum til skila. „Ég bauð öryrkjum Íslands til Alþingis á dögunum til að ræða örorkufrumvarpið og þessar tillögur voru smíðaðar í kjölfarið. Meðflutningsmenn eru þau Arndís Anna K. Gunnarsdóttir í Pírötum, Bergþór Ólason í Miðflokki, Guðbrandur Einarsson í Viðreisn og Guðmundur Ingi Kristinsson í Flokki fólksins. Um er að ræða eins konar lágmarkskröfur – sem eru svo hófstilltar og í raun sjálfsagðar að við trúum ekki öðru en að meirihlutinn á Alþingi geti fallist á þær. Þetta er risastórt velferðarmál sem varðar ekki aðeins alla öryrkja Íslands heldur einnig vinnandi fólk sem getur misst starfsgetu í framtíðinni, ef það veikist til dæmis eða lendir í slysi. Höldum baráttunni áfram,“ segir Jóhann Páll.