Lóðabrask og markaðsöflin gera það ómögulegt að byggja hagkvæmt húsnæði. Þetta og fleira kemur fram í máli Ragnars Þórs, formanni VR, í samtali við RÚV, en hann segir húsnæðisáætlanir um uppbyggingu íbúðahúsnæðis ekki ætla að raungerast.
Samstöðin hefur fjallað rækilega um þetta vandamál á undanförnum vikum, en sú leið sem gervöll stjórnmálastéttin á Íslandi hefur kosið að fara í uppbyggingu húsnæðis fyrir almenning hefur algerlega beðið skipbrot. Það er leið uppboðs og útdeilinga á lóðum og eftirláta síðan markaðsdrifnum öflum algerlega um það byggja nokkrun skapaðann hlut.
Það er nefnilega rannsóknarefni að yfirvöld á Íslandi hafa ekki byggt eina íbúðareiningu í húsnæðiskreppunni sem nú hefur staðið yfir í rúman áratug. Ekki eina.
Allt íbúðahúsnæði sem byggt er á Íslandi er gert af hálfu einkafyrirtækja og félaga.
Ragnar Þór segir lóðaskort, háa vexti og úrræðaleysi stjórnvalda stórar ástæður bráðavanda á húsnæðismarkaði, enda sé hvorki náð að byggja nóg til að mæta árlegri né uppsafnaðri þörf.
Lóðaskorturinn sé þó fyrst og fremst sök markaðsleiðarinnar og fjárfesta. „Lóðir hafa gengið hér kaupum og sölum. Við sem erum að byggja hagkvæmt húsnæði fáum ekki lóðir á hagkvæmu verði vegna þess að við getum ekki keppt við markaðinn þegar sveitarfélög selja hæstbjóðendum lóðirnar. Þær eru keyptar á yfirverði og síðan jafnvel seldar aftur, og ganga síðan kaupum og sölum þar til einhver er tilbúinn að byggja.“
Þannig lýsir Ragnar vandamálinu við markaðsleiðina í hnotskurn. Lóðir eru fyrir löngu orðnar að gróðavöru, líkt og húsnæðið sjálft, fjárfestingatækifæri fyrir braskara sem taka sinn gróða út án þess að framleiða nokkurn skapaðann hlut né bæta neinum verðmætum við lóðina.
Það sturlaða við þessa stöðu er að það virðist enginn ágreiningur vera um þessa leið, hvorki hjá ríki né sveitarfélögum og borg. Allir ráðandi meirihlutar, meira að segja regnbogaflokkarnir hjá borginni, virðast fullkomlega sáttir við að hafa þetta svona. Engum dettur í hug að hið opinbera geti byggt, né að lóðum sé sérstaklega úthlutað til óhagnaðadrifinna félaga eins og Bjargs og hvað þá að gera samvinnufélögum auðveldara um vik að vera til, hvað þá að fá lóðir.
Nei, lóðir, líkt og húsnæði, eru leikföng ríka fólksins til að auðgast enn meir. Það kemur sótsvörtum almúganum ekkert við, þó svo að heimilisleysi og fátækt aukist. Þó svo að leigjendur og fyrstu kaupendur séu í sí verri stöðu og börn leigjenda sérstaklega upplifi sárari fátækt en áður, með tilheyrandi afleiðingum fyrir þeirra heilsu, félagslega öryggi og framtíð.
Það skiptir ekki máli, svo lengi sem fáir útvaldir fái að græða.
Hjá Bjargi hefur fjölda fólks á biðlista fjölgað um 150% frá því í fyrra, segir Ragnar Þór og býst við að þeir biðlistar lengist bara. Ástandið sé skelfilegt og það mistakist alltaf að byggja nóg. Augljósar lausnir væru meðal annars að byggja í Úlfarsárdal og fylgja fordæmi annarra Evrópuríkja með því að þrengja að skammtímaleigu til ferðamanna.
New York borg hefur gert reglur fyrir AirBnB svo strangar að nánast ómögulegt er orðið að reka slíkt brask þar lengur. Borgaryfirvöld í Barselóna tilkynntu fyrir nokkrum dögum síðan að skammtímalegia fyrir ferðamenn í íbúðarhúsnæði verði bönnuð með öllu á næstu árum. Mörg þúsund íbúðir eru á þessari stundu í slíkri útleigu hér á Íslandi og auðvelt er að banna það. Sú ákvörðun er meðvitað hunsuð af yfirvöldum.