Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, hefur birt sláandi samanburð á kjörum Íslendinga sem taka húsnæðislán miðað við Færeyinga. Að ekki sé talað um Dani.
„Margfaldaðu 50.000 með fjölda milljóna króna sem þú skuldar í húsnæðislán. Ef lánið þitt stendur í 10 milljónum, er upphæðin 500.000 kr. Standi það í 20 millljónum er upphæðin 1 milljón kr. og svo framvegis,“ segir Breki.
„Þetta er upphæðin sem þú greiðir árlega í vexti af húsnæðisláninu þínu umfram það sem Færeyingar greiða,“ segir Breki.
Ekki þarf að taka fram að sá sem greiðir milljónir á ári í vexti er ekki á sama tíma að minnka höfuðstól lánsins. Hann er að brenna peninga.
„Ímyndaðu þér svo hvað þú getur gert við peningana sem þú myndir spara ef vextir á íslandi væru á pari við vexti í Færeyjum,“ segir Breki.
Breytilegir vextir húsnæðislána á Íslandi eru nú á bilinu 9-11%. Það er tvöfalt hærra en í Færeyjum og þrefalt hærra en í Danmörku.
Það þýðir að íslenskt heimili sem skuldar 40 mkr. í húsnæðislán greiðir 167 þúsund krónur hærri upphæð í vexti á hverjum einasta mánuði en færeyskt heimili sem skuldar sambærilega upphæð, og 223 þúsund krónur á mánuði hærri upphæð en danskt heimili.
Þarna munar fimm prósentustigum, eða 50.000 krónum á hverja lánsmilljón í vaxtagreiðslur á ári.
Vaxtamunurinn var 3% árið 2017.
Breki spyr: „Af hverju eru vextir á Íslandi svona miklu hærri en í Færeyjum?“
Getur lesandinn svarað því?