Efnahagsstjórn hægrisins heldur áfram sínum óskunda fyrir samfélagið en hagvaxtarhorfur á árinu eru 0,9%. Meiri hagvöxtur var á tímum Covid og á eftirhrunsárunum. Þetta og fleira kemur fram í þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.
Í stjórnmálaumræðu er orðræðan yfirleitt mjög formúlukennd. Vinstri öfl tala fyrir velferð og skattahækkunum, hægrið malar um skattalækkanir og hinn eilíflega mikilvæga hagvöxt.
Það er því áfellisdómur yfir hægristjórninni þegar hagvöxtur mælist svo nærri núlli. Ekki er það endilega verðbólgunni að kenna að hagvöxtur mælist svo lágur því einkaneysla eykst og mun halda áfram að aukast að mati Hagstofunnar. Raunar svo að einkaneysla sé það eina sem haldi hagvexti jákvæðum.
Það er þó merkilegt að á eftirhrunsárunum, 2011-2012, þegar loks tókst að rétta úr samdrætti Hrunsins, mældist hagvöxtur 1,8% og 1,1%. Staðan er því verri núna en það sem hægri menn bölvuðu gjarnan í sand og ösku sem skipbroti vinstri stjórnarinnar þá.
Svo er það eiginlega merkilegra að fyrir árið 2020 þegar hagkerfið dróst saman um 6,9%, þá var gríðarmikill hagvöxtur næstu tvö árin eftir það, 5,1% árið 2021 og 8,9% árið 2022. Þá enn í miðjum faraldri.
Stríðið í Úkraínu braust svo út og hagvöxtur var enn sterkur. En svo núna þegar það eru orðin gömul tíðindi og faraldurinn er löngu liðinn þá tekst hægrinu ekki að halda hagkerfinu betur gangandi en svo.