Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar var svartsýnn á horfur sumarsins í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. Allt að 10-15% samdráttur verði til að mynda í hótelbókunum miðað við síðasta sumar og sú staða versni því lengra sem farið er frá höfuðborgarsvæðinu.
Þessi staða bitni einmitt helst á landsbyggðinni, þar sem líklegt þykir að færri ferðamenn stoppi skemur við og fari mun styttra út á land og utan stórhöfuðborgarsvæðisins. „Þannig að þetta bitnar kannski ekki síst á þeim sem eru kannski ekki í alfaraleið.“
Að einhverju leyti segir Jóhannes að eldgosin hafi spilað inn í, en ólíkt fyrri staðhæfingum hans um áhrif þeirra tók Jóhannes fram í þetta sinn að helstu áhrifin á neikvæðar horfur í ferðamannaiðnaði séu verðlagningin og verðbólga. En skellir þó eitthvað af skuldinni á yfirvöld sem hann segir hafa hætt að veita fjármagni til landkynningar.
„Ísland er í vítahring græðginnar, ekki satt?“
Hvað varðar helstu áhrifin virðist almenningur vera um flest sammála því að okur í ferðamannaiðnaði hafi þessi áhrif, en eru öllu ólíkt Jóhannesi gagnrýnni í garð fyrirtækjanna sem ákveða verðlagninguna. Undir fréttinni á Vísi segir Pétur nokkur meðal annars: „Ísland er í vítahring græðginnar, ekki satt?“ Sigríður bendir á að „ferðaþjónustan sér nú endanlega um að sökkva sjálfri sér með græðgi“.
Maður að nafni Magnús kemur með ágætis ábendingu: „Hefur ferðaþjónustan lagt til hliðar peninga til að eiga þegar samdráttur verður?“
Annað fólk bendir á að ferðamenn sem þau hafi leiðsýnt hreinlega hristi hausinn yfir verðlagi og versli ekki neitt þar sem þeim blöskri.
Ferðaiðnaðurinn upplifði gífurvöxt á síðustu árum með neikvæðum áhrifum á samfélagið
Ferðaiðnaðurinn er tíðrætt umræðuefni íslensks samtíma, eðlilega kannski verandi iðnaður af slíkri stærðargráðu. Gjarnan fylgir slíkri umræðu, af hálfu hagsmunaðila, skortur á samhengi og afleiðingum. Það er til dæmis þannig að ef að hótelbókunum fækkar um 10-15% í ár miðað við sumarið í fyrra, þá varð aukningin árið á undan, frá maí 2022 til maí 2023, um 25%. Samt var nýtingin á hótelherbergjum þá ekki nema 66%.
Með öðrum orðum, þá hefur ferðaiðnaðurinn upplifað gífurvöxt síðan frá lokum Covid-faraldursins og þó eitthvað slakni í sumar þá er það í engum samanburði við þann vöxt sem þegar hefur orðið.
Þá er orðið algengara en áður að gagnrýnisraddir heyrist gegn gegndarlausri ofurvaxtarkröfu ferðaiðnaðarins. Svo langt inn í efstu lög ráðandi hagsmuna nær sú gagnrýni að meira að segja fyrrverandi Seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, tjáði sig með þeim hætti á síðasta ári í viðtali við Heimildina að innleiða þyrfti „stýritæki til að dempa vöxt í ferðaþjónustu þegar hann verði of mikill“.
Ofvaxinn ferðaiðnaður hefur nefnilega ekki bara jákvæð áhrif á þjóðarbúið með auknum gjaldeyristekjum. Ljóst er að iðnaðurinn hefur gríðarlega neikvæð áhrif á húsnæðismarkaðinn, sem er í einu versta neyðarástandi sem stendur þó litið sé öld aftur í tímann. Mikill innflutningur á vinnuafli í þennan mannaflafreka iðnað býr til gífurlega eftirspurn á húsnæði, en ekki síður eru það gróðatækifærin í skammtímaleigu á við AirBnB sem svipa íbúa einnig framboði á húsnæði, hvort sem er til leigu eða kaupa á heimili.
Enn í dag er verið að taka stórar lóðir til að byggja fleiri hótel á höfuðborgarsvæðinu, það án þess að núverandi hótel séu einu sinni fullnýtt, langt því frá. Þær lóðir mætti nýta undir íbúðarhús, eða einfaldlega þá byggingarverktaka sem slík verk taka, mætti nýta í byggingu á íbúðarhúsnæði sem svo sárvantar.
Þá eru eftirtalin neikvæð áhrif ferðaiðnaðarins á aðra innviði, bæði með auknum íbúafjölda en einnig ágangi ferðamanna. Hvort sem litið er til vega, skóla, náttúruperlur eða heilbrigðiskerfi.
Samt sem áður skipar ferðaiðnaðurinn slíkan sess í efnahagi Íslands að samdráttur þar hefur margvísleg kvíslandi áhrif útfrá sér. Sú staðreynd, ásamt margvíslegum öðrum neikvæðum teiknum á lofti, efnahagslega séð, voru til umræðu í spjalli bræðranna Sigurjóns og Gunnars Smára í loks þáttarins Synir Egils á sunnudaginn síðastliðinn. Mörg eru áskorunarefni ríkisstjórnarinnar á næstu vikum og mánuðum, en samstarfs ríkisstjórnarflokkanna stendur á afar skeikulum grunni nú þegar.
Bræðraspjallið: