Kristrún Frostadóttir slær í sama tón og breski Verkamannaflokkurinn í eldhúsdagsræðu sinni

Fæstir fylgjast vel með Morfís-keppni stjórnmálamanna ár hvert, hinum svokölluðu eldhúsdagsræðum. Engu að síður má stundum finna áhugaverða mola hér og þar í orðaskylmingum og orðræðugjálfri flokkanna á þingi. Sér í lagi þegar nær dregur kosningum, en þá má oft finna æfingar fyrir kosningabaráttu í ræðum þingmanna. 

Enginn veit hvort stjórnin lifir út kjörtímabilið enda ófær um að koma nánast nokkru frumvarpi í gegnum eigin raðir og því um að gera fyrir þingmenn að búa sig undir snemmbúnar kosningar með ræðuhaldi.

Í eldhúsdagsræðu sinni sló Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar í kunnuglegan tón sem minnti óþyrmilega á tóninn sem heyra má í breska Verkamannaflokknum sem er nú í kosningabaráttu eftir að forsætisráðherra Íhaldsflokksins tilkynnti um snemmbúnar kosningar.

Samfylkingin mun „end­ur­heimta efna­hags­leg­an stöðug­leika“ sagði Kristrún. Ekki bara það heldur líka „kveða niður verðbólgu og vaxta­stig og þetta er lof­orð“. Kristrún hélt áfram: „Ég heiti því að tryggja aft­ur efna­hags­leg­an stöðug­leika fyr­ir fólkið í land­inu, með ábyrg­um rík­is­fjár­mál­um.“

Ástæða þess að þetta er kunnnuglegur tónn er af því að Verkamannaflokkur Breta, sem hefur verið í álíka langri útlegð frá stjórnarþátttöku og Samfylkingin, hefur reynt að mála flokk sinn upp sem málsvara efnahagslegs stöðugleika. Keir Starmer, formaður flokksins, hefur áunnið sér mikið háð í raun þar sem hann hefur endurtekið sama frasann endalaust síðasta árið í viðtölum, „we will grow the economy, we will grow the economy“ (við munum láta efnahaginn vaxa).

Að einhverju leyti er þetta eðlileg herkænska, þegar að hægri flokkur hefur lengi verið við völd, en hægri flokkar hreykja sér gjarnan af því að þeir séu þeir einu sem kunni að fara með ríkisfjármál, en á sama tíma eru efnahagir landanna beggja, Íslands og Bretlands, nokkurn veginn í rúst. Af öðrum ástæðum og öðruvísi eðlis kannski, en engu að síður í klúðurslegu ástandi.

Kristrún Frostadóttir hefur vissulega yfirhöndina gagnvart samherja sínum honum Starmer, í formi sjarma og kjörþokka, en Starmer er gjarnan gagnrýndur fyrir að hafa persónuleika á við hvítan eldhúspappír.

Það sem má hins vegar velta vöngum yfir er hvort Kristrún sé með þessu að róa á sömu pólitísku mið og Starmer. Starmer hefur úthýst vinstri væng Verkamannaflokksins, flokks sem skilgreindur er oftar en ekki vinstra megin við miðju, með bókstaflegum hætti þannig að Jeremy Corbyn, fyrrverandi formanni flokksins, og hans helstu samherjum innan flokksins hefur verið sparkað úr flokknum og með einum og öðrum hætti meinað um að fara í framboð undir merkjum hans. 

Starmer hefur einnig sagst ætla að hunsa ýmis gömul stefnumál flokksins, svo sem að lækka eða afnema skólagjöld í háskólum, sem eru gríðarlega há og að afturkalla ýmsar breytingar sem Íhaldsflokkurinn hefur gert, til að mynda grafið undan ýmsum stuðningskerfum við fátæka og börn fátækra. Starmer hefur fyrir þetta hlotið mikla gagnrýni frá breska vinstrinu fyrir að róa hart yfir á mið Íhaldsflokksins og taka upp stefnu hans að mörgu leyti, gegn þeirri von um að vinna sér inn kjósendur þeirra.

Kristrún hefur þegar sagst ætla að setja ýmis gömul stefnumál Samfylkingarinnar á ís, svo sem ESB-aðild og ýmis önnur mál sem varða jafnréttismál. Þá hefur hún tekið undir áhyggjur margra til hægri í stjórnmálunum um innflytjendamál og daðrað þannig við álíka stefnu Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmörku og leiðtoga sósíaldemókrata.

Ræða hennar í dag mætti mögulega túlka sem áframhaldandi siglingu í þá átt, að gera Samfylkinguna að flokki sem taki atkvæði frá hægri flokkunum, en fórni þá að einhverju leyti hugmyndafræði flokksins í leiðinni. Snjöll herkænska er þessi orðræða Kristrúnar líka, enda viðkvæmasti höggstaðurinn á Sjálfstæðisflokknum sú hörmulega staða sem er uppi í efnahagsmálum.

Kristrún hitti þannig algerlega naglann á höfuðið með gagnrýni sinni. „Er þetta virki­lega það sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn kall­ar ráðdeild í ríkisfjármálum? For­sæt­is­ráðherra hæst­virt­ur virðist vera í full­kom­inni af­neit­un og þegar ég spurði um þessa stöðu í þing­inu um dag­inn þá kallaði hann þetta, með leyfi for­seta: „bestu efna­hags­legu stöðu í lýðveld­is­sög­unni“. Því­lík af­teng­ing við efna­hags­leg­an veru­leika al­menn­ings. Maður sem er svo firrt­ur fyr­ir vand­an­um, sem hann hef­ur sjálf­ur skapað, er aug­ljós­lega ófær um að koma okk­ur út úr þess­ari stöðu“.

Hvort Kristrún og Samfylkingin reynist raunverulega búa yfir lausnum þarf að koma í ljós, en vona má að hún taki hvorki Keir Starmer né Mette Frederiksen sér fullkomlega til fyrirmyndar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí