Uppspretta hamingju telja sumir að finna í peningum eða velferð eða ást og umhyggju. Oftast nær liggur svarið í einhvers konar samblandi samt. Nú kemur í ljós að fegurð umhverfisins, nánar tiltekið í arkitektúr, er ein slík uppspretta.
Rannsókn unnin við norska háskólann NMBU komst að því að hefðbundinn arkitektúr gerir fólk hamingjusamara en kaldrænni nútímastíll bygginga. Fagurfræði í byggingum hafi sumsé merkjanleg áhrif á hamingju fólks.
„Við vitum úr öðrum rannsóknum að fagurfræði og umhverfið eru ekki bara spurning um skoðun fólks. Umhverfið okkar hefur áhrif á hamingju okkar og jákvæðar tilfinningar gagnvart umhverfinu okkar tengjast hærri stigi lífsgæða.“ Svo mælti Kostas Mouratidis, einn rannsakendanna við NMBU.
Rannsóknin bar saman svör og viðbrögð þátttakenda við 8 götumyndum sem þeim voru sýndar í formi sýndarveruleika forrits, þar sem gengið var um svæðin. Tilgangur þess var að fá sömu tilfinningar hjá þátttakendum eins og þeir væru að ganga um svæðin sjálf, en á sama tíma hafa upplifunina algerlega eins í formi sýndarveruleika til að hægt væri að bera auðveldar saman svörin.
Helmingur myndanna var af svokölluðum hefðbundnum arkitektur, byggingum og götum í hönnunarstíl sem einkenndi 19. öldinga og fyrri hluta þeirrar 20.. Sá stíll einkennist af „samhverfum, skrautstíl, náttúrulegum efnivið (svo sem stein og við) og skýrum vísunum í staðbundnar hefðir“.
Fyrir Íslandi má strax hugsa sér dæmi um slíkt. Falleg gömul bárujárnshús sem finna má enn víða eins og Tjarnarskóli við Reykjavíkurtjörn, tignarleg og stór steinhús í dönskum nýlendustíl í Vesturbænum eða Miðbæ, eldri göturnar á Akureyri og í smærri þorpum og bæjum í kringum landið.
Hinn helmingurinn var af svokölluðum nútímastíl, sem er alþjóðleg þróun í arkitektúr, ákveðinn stíll sem á rætur sínar í póst-módernisma og hátæknistíl seinni hluta 20. aldarinnar, en er mjög svo markaður af 21. öldinni. Slíkar byggingar og götur einkennast af „mínímalisma, ósamhverfu og lítilli notkun af skrauti. Byggingarnar eru oft gerðar úr sléttri steypu, gleri og stáli“.
Hughrif verða strax til hins nýbyggða Hafnartorgs, hins réttnefnda Skuggahverfis í Reykjavík og fleiri nýbygginga víða um land síðustu ár sem allir Íslendingar hafa líklega tekið eftir. Kassalaga, mínímalískt, hrá steypa og mikið af gleri eða stálplötuklæðningum, grátt, harkalegt og kuldalegt.
Í tilviki Hafnartorgs má ímynda sér að stíllinn sé valinn af kreðsum í hönnunargeiranum, en í tilviki nýbygginga íbúða má glöggt sjá að þar gildir hagkvæmni ofar öllu. Enda hefur húsnæðiskrísan verið látin í hendur markaðarins, þar sem önnur lögmál en hamingja og velferð gilda. Byggt er ódýrt og mínímalískt til að hámarka gróða einkaaðila.
Matskvarðar í rannsókninni voru gefnir fyrir alls kyns tilfinningar svo sem skala á notalegt á móti ónotalegt, spennandi á móti leiðinlegt, afslappandi á móti stressandi, öruggt á móti óöruggt, áhugavert á móti óáhugavert og virkt á móti óvirkt. Þá var þátttakendum einnig gert að svara spurningum um hvort þeim líkaði við ákveðnar byggingar og götuna eða torgið sjálft.
Niðurstöðurnar voru skýrar. Hefðbundnari götumyndir voru talsvert betur metnar af þátttakendum, heldur en hinar nútímalegu.
Rannsakendurnir vonast til að endurtaka rannsóknina á stærri skala í framtíðinni og segja grundvallar notagildi slíkra rannsókna að fá raunverulegar mælingar á því hvað umhverfi stuðlar að meiri hamingju. „Þá getum við búið til betri borgir í framtíðinni“, sagði Mouratidis.
Það sé afar mikilvægt að borgir séu byggðar fyrir fólkið sjálft sem býr þar, það ætti ekki að vera einungis í höndum byggingarverktaka, arkitekta og markaðarins að ákveða ásýnd og fagurfræði borga til áratuga. „Fólkið sem býr þar ætti að geta haft áhrif í gegnum þátttöku og þeirra sjónarhorn koma fram í rannsóknum eins og þessari.“