Matvælaráðherra í valkvíða – sprengja ríkisstjórn eða granda eigin flokki

Ennþá bíða hvalveiðimenn ákvörðunar matvælaráðherra, Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, um leyfisveitingu til hvalveiða. Ráðherranum hefur borist sextán umsagnir um málið, frá hagsmunaaðilum jafnt og náttúru- og dýraverndunarsamtökum.

Málið á sér töluvert langan aðdraganda en Hvalur hf. sótti um leyfi 30. janúar síðastliðinn. Katrín Jakobsdóttir var þá starfandi matvælaráðherra, til byrjunar apríls, í veikindaleyfi Svandísar Svavarsdóttur og tók enga ákvörðun um málið í þá rúma tvo mánuði.

Leiða má líkum að því að Katrín hafi ekki viljað stofna forsetaframboði sínu í hættu en það hlýtur að þykja nokkuð augljóst að Katrín var líklegast byrjuð að huga að því framboði um leið og Guðni Th, fráfarandi forseti, lauk nýársávarpi sínu.

Katrín var því í þeirri stöðu að annaðhvort samþykkja hvalveiðar korteri í forsetakosningar, sem hefði verið pólitískt sjálfsmorð, þar sem rífur meirihluti almennings er mótfallinn hvalveiðum og einkennismerki Katrínar um velferð náttúru og dýra hefði orðið auri þakið.

Að hafna leyfisveitingu til hvalveiða hefði hins vegar hleypt illu blóði í óstöðugt stjórnarsamstarf, en ákvarðanir Svandísar Svavarsdóttur höfðu þá þegar ollið mikilli úlfúð meðal stjórnarþingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, sumir hverjir sem hótuðu vantrausti á ráðherra eigin ríkisstjórnar í hefndarskyni.

Leyfisveitingin hefur því enn hangið í loftinu í matvælaráðuneytinu og sannarlega ekki verið forgangsmál í þeirri mikiu óreiðu sem fylgdi ráðherrakapalnum í kjölfar framboðs Katrínar. Bjarni Benediktsson varð forsætisráðherra og Bjarkey Olsen tók við matvælaráðuneytinu.

Það hefur samt sem áður liðið dágóður tími síðan og málið hefur ekki enn verið afgreitt. Segja sumir spekúlantar að beðið hafi verið með málið, rétt eins og frumvarp um lagareldi, til að forða Katrínu álitshnekki í forsetakosningunum.

Engu að síður kallaði Bjarkey loks eftir umsögnum 28. maí og gaf frest til 4. júní til þess.

Umsagnir hagaðila sem hafa borist matvælaráðherra:

  • Samtök ferðaþjónustunnar
  • Hvalaskoðunarsamtök Íslands
  • Dýraverndarsamband Íslands
  • Samtök um dýravelferð á Íslandi
  • Náttúruverndarsamtök Íslands
  • Landvernd
  • Félag kvikmyndagerðarmanna
  • Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi
  • Verkalýðsfélag Akraness
  • Félag skipstjórnarmanna
  • Félag vélstjóra og málmtæknimanna

Félag Hvalavina sendi einnig umsögn til matvælaráðherra og andmæla sterklega því að leyfa hvalveiðar á ný. Í umsögn þeirra segir meðal annars:

„Í dag er allt sem mælir gegn því að stunda hvalveiðar fyrir efnahag Íslands, Hvalur hf. tapaði 3
milljörðum á 10 árum og ferðamannaiðnaðurinn og kvikmyndaiðnaðurinn sem við höfum lagt hart að
okkur að byggja upp á hættu á stórtapi vegna alþjóðlegs þrýstings ef við hættum ekki.
Ekki einu sinni almenningur í landinu styður hvalveiðar, samkvæmt könnun Maskínu frá í fyrra eru
53% landsmanna andvíg hvalveiðum og aðeins 29% eru hlynntir þeim.“

Nú bíður Bjarkeyjar erfið ákvörðun. Flokkur hennar, Vinstri græn, hafa beðið afhroð í nýlegri skoðanakönnun Gallup, með 3,3% fylgi, lægsta í sögu flokksins og tapaði forsetakosningum þar sem leiðtogi þeirra til langs tíma tapaði með miklum mun.

Ef Bjarkey ætlar að ganga gegn umsögnum náttúruverndarsinna, sem eru áhrifamiklir í hópi stuðningsmanna flokksins, sem og meirihlutavilja almennings, með því að samþykkja leyfisveitingu til hvalveiða þá er voðinn vís fyrir flokkinn.

Ef hins vegar, Bjarkey mun freista þess að hafna leyfisveitingu þá er voðinn vís fyrir ríkisstjórnarsamstarfið. Eftir aðförina að Svandísi þegar hún hafnaði leyfisveitingum er ljóst að árásir munu einnig verða ákafar á Bjarkeyju. 

Þá gæti það mögulega orðið kveikjan að því að sprengja stjórn en flokkarnir eru ekki á besta stað til að fara skyndilega í kosningar. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki kominn í það að velja sér nýjan formann, en það liggur fyrir að Bjarni Ben mun ekki halda áfram. Þá væri það ansi skæður álitshnekkur fyrir Bjarna ef önnur ríkisstjórn hans í röð, þar sem hann er forsætisráðherra, verði afar skammlíf og springi.

Framsóknarflokkurinn er ekkert í verstu stöðunni, þau hafa haldið í lágmarksfylgi sitt og munu að öllum líkindum verða aðili að stjórnarmyndun eftir kosningar hvort sem er til vinstri eða hægri.

Vinstri græn eru mögulega þó í verstu stöðunni. Flokkurinn er leiðtogalaus, er í lægstu lægðum í fylgi og er alvarlega laskaður eftir 7 ár í stjórn með pólitískum andstæðingum sínum í Sjálfstæðisflokknum. Ef Bjarkey freistar þess að hamla hvalveiðum og sprengir þar með stjórnina gæti VG hreinlega þurrkast út af þingi.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí