Meta hyggst sópa öllum okkar gögnum upp til að fóðra gervigreind – tímabundið afturreka í Evrópu

Fyrirtækið Meta, sem á og rekur Facebook og Instagram, hefur nú orðið afturreka með áform sín um að hefja allsherjar uppsópun á gögnum notenda Facebook í Evrópu, ef marka má tilkynningu persónuverndarsamtakanna Noyb. Ekki er þó fullur sigur enn, heldur er líklegast aðeins um tímabundið hlé á áformum Meta að ræða. Notendur þurfa því að passa sig á því að afþakka þátttöku, hafi þeir ekki áhuga á því að gefa öll sín gögn til gervigreindarinnar.

Samtökin Noyb, sem eiga höfuðstöðvar sínar í Vínarborg í Austurríki, byggja á því að verja stafræn réttindi Evrópubúa. Þau tilkynntu 14. júní að gagnaverndarráð Evrópu (Data Protection Commission) hefði tekið stefnubreytingu gegn áformum Meta um að sópa upp öllum gögnum notenda Evrópusambandsins til þjálfunar gervigreinda og í kjölfarið hafi Meta tilkynnt það að notendum í Evrópu verði þyrmt við þessum áformum að sinni.

Formálinn er einfaldlega sá að Meta tilkynnti nýlega öllum notendum Facebook að gögn þeirra yrðu nýtt til söfnunar í þjálfunarhermi fyrir gervigreind fyrirtækisins. Notendur Facebook í Evrópu ættu að hafa tekið eftir slíkri tilkynningu, enda var þeim gefinn valmöguleiki um að hafna þátttöku sinni í þessu.

Myndstef – Myndhöfundasjóður Íslands, samtök sem vinna að því að verja höfundarréttindi listafólks, varaði við þessum áformum á Facebook-síðu sinni í síðustu viku og sagði áform Meta hreinlega vera þau „að fóðra gervigreindina okkar á öllu sem þú hefur birt á miðlum okkar nema þú smellir hér og segir nei innan næstu 4ra vikna“. Til þess að segja nei var notendum hins vegar gert töluvert erfitt um vik, enda þónokkrar hindranir í veginum og þess krafist að notendur útskýri hvers vegna þeir vilji ekki leyfa uppsópun gagna sinna.

Eins og Myndstef útskýrði í færslu sinni þá eru samfélagsmiðlar afar mikilvægir fyrir listamenn af öllu tagi til að koma sér á framfæri, en sömuleiðis deila almennir notendur mörgu á miðlunum, hvort sem er myndefni, texta eða öðru.

Fyriráætlanir Meta um að fóðra gervigreind sína á gögnum notenda hafa þegar hafist í öðrum löndum, utan „strangrar persónuverndarlöggjafar Evrópu“, en Meta tókst að komast hjá þeim, að því er virtist í fyrstu með því að uppfylla tvö skilyrði, útskýrði Myndstef áfram:

„a) Að hægt yrði að neita að taka þátt, og

b) að gefinn yrði 4 vikna frestur til þess.“

Eftir að Noyb, gagnaverndarráð Evrópu og margvísleg samtök áhugafólks og aðgerðasinna hófu að mótmæla þessum áformum, þar sem þau voru þannig úr garði gerð að erfiðara var að hafna þátttöku en að taka þátt, þá virðist sem svo að Meta hafi dregið áform sín til baka.

Noyb tilkynnti þannig að afstaða Meta hafi breyst vegna mótmæla og athugasemda, meðal annars frá gagnaverndarráði Evrópu. Max Schrems, formaður og stofnandi Noyb, orðaði það sem svo að „yfirlýsing Meta má lesa eins og einhvers konar hóprefsingu. Að ef einn Evrópubúi heimtar réttindi sín þá muni öll álfan ekki fá nýju leikföngin okkar“.

Meta hafi lagalegan rétt til að fara aðra leið, að biðja beinlínis notendur Facebook í Evrópu um leyfi til að nota gögnin þeirra í stað þess að gera fólk sjálfkrafa að þátttakendum ellegar hoppa yfir hindranir til að afþakka það, segir Max. „Það kýs hins vegar ekki að gera það.“

Eftir þessar sviptingar í áformum Meta fagnaði Myndstef niðurstöðunni í annarri færslu á Facebook, en Andrea Helgadóttir, varaborgarfulltrúi Sósíalista í Reykjavík, setti varnagla við fögnuðinn í athugasemd undir færslunni. „Fagna, en svona hóflega …gætu laumast til að gera þetta aftur seinna þegar fólk er búið að gleyma þeim.“

Það er því ekki úr vegi að fólk kynni sér hvernig skuli fara að til að afþakka þátttöku, til vonar og vara, svo vísað sé aftur í færslu Myndstef þar sem leiðbeiningar til þess voru gefnar:

„Á facebook í tölvu er hægt að smella á „account icon“, í efra hægra horninu, velja „settings & privacy“, og velja „Privacy Center“. Velja svo „Generative AI at Meta“, fara undir „How Meta uses information for generative AI models“, neðarlega er hægt að smella á „Right to object“.“

Atburðarrásin með þessi áform og eðli þeirra sýnir ennfremur þann bráða vanda sem kemur upp þegar að fyrirtæki eins og Meta hafa einokað nær algerlega sinn markað, ekki síst þar sem vettvangur þeirra á Facebook, er orðið að samfélagstorgi allrar umræðu í lýðræðissamfélögum.

Algóryþmar gera nú þegar nægan óskunda með því að ýta undir skautun, stjórna umræðu og aðgangi að upplýsingum og gera okkur öllum persónulega bergmálshella sem ýmist reita okkur til reiði eða gleði til að hvetja áfram smellina og áhorfið, fyrirtækinu einu til hagsbóta. Ekki verður séð að tilkoma gervigreindar Meta í ofanálag muni bæta úr þeirri stöðu, þvert á móti.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí