Gríðarleg taugaspenna er meðal sjálfstæðismanna eftir að könnun Maskínu sýndi í gær að flokkurinn nýtur stuðnings aðeins rúmra 14 prósenta landsmanna.
Nokkrir sjálfstæðismenn sem Samstöðin hefur rætt við segja að Bjarni Benediktsson formaður og forsætisráðherra hafi vart undan að bregðast við glósum og gagnrýni innan úr flokknum.
Þótt formaðurinn reyni að seilast í gamalt teflon molni hratt undan leiðtoganum þar sem fylgið við fyrrum stórveldi pólitískrar sögu sé á pari við Miðflokkinn og hið lægsta í sögunni.
Fyrrum innmúraður sjálfstæðismaður, Jón Kristinn Snæhóm, hefur síðustu daga farið mikinn á Internetinu í gagnrýni á Bjarna. Í viðtali við Mannlíf segir Jón Kristinn að Bjarni þekki ekki sinn vitjunartíma.
Í viðtali við Moggann rifjar Bjarni upp að hann hafi áður snúið erfiðri stöðu flokknum í hag fyrir kosningar.
En eftir því sem sjálfstæðismenn halda fram í samtölum við Samstöðina, stefnir nú í vonlaust verk fyrir Bjarna vegna allra spillingarmálanna sem að baki eru.
Orðrómur er uppi um að hraða landsfundi og skipta um forystu hið snarasta.