„Í dag er veður frá helvíti. Kolbrjálað norðvestan hvassviðri og snjókoma.“
Þetta segir Sigurbjörn Árni Arngrímsson, sem íslenska þjóðin þekkir vel vegna íþróttalýsinga kappans á Rúv.
Sigurbjörn Árni er ekki bara skólameistari á Laugum heldur einnig sauðfjárbóndi. Hann er í hópi Norðlendinga sem segja ekki sínar farir sléttar af viðskiptum við veðurguðina þessa dagana. Hvassviðri og snjókoma leika menn grátt og hiti undir frostmarki.
Ari Teitsson, bóndi á Brún, segist ekki muna annað eins veður á þessum árstíma. Það sem er sérstakt er að óveðurshvellir eru jafnan stuttir í júní. Nú er mestöll vikan undir og ekkert lát á harðindunum samkvæmt spá Veðurstofu.
Mikil vandræði eru með sauðfé. Því hefur víða verið smalað, en vandræði geta orðið við næringu og fóðrun.
Stórfelldur fugladauði gæti orðið, enda er varp hafið og líf unga hangir á bláþræði.
Hringvegurinn er lokaður á tveimur stöðum.
„Í dag er einn mesti vetrardagurinn í Mývatnsveit í vetur – og sá mesti í sumar,“ segir Sigurbjörn Árni.
Jóhann Friðrik Kristjánsson, íbúi í Vogum í Mývatnssveit, neitar þó að láta húmorinn af hendi. Hann birtir mynd á facebook þegar fór að snjóa og óskar landsmönnum gleðilegra jóla!