Fækkun barneigna vegna aukins áhugaleysis og versnandi samfélagsaðstæðna

Doktor í félagsfræði sem hefur rannsakað frjósemi og fæðingartíðni til margra ára segir tvær ástæður helstar fyrir mikilli fækkun barneigna.

Sunna Símonardóttir er doktor í félagsfræði og hefur tileinkað rannsóknum sínum þetta viðfangsefni. Hún var til viðtals hjá RÚV í gær vegna nýrra frétta af gríðarlega miklu falli í fæðingartíðni á Íslandi.

Sú þróun hefur snúist algerlega við sagði Sunna. „Lengi vel var fæðingatíðnin á Íslandi mjög há og stöðug, skar sig þannig frá fæðingatíðninni á hinum Norðurlöndunum. Síðan breyttist þetta, núna erum við á þessari niðurleið – við erum bara á eftir hinum Norðurlöndunum.“

Hún kennir tveim ástæðum helst til um. Fyrir það fyrsta sé mikil aukning af fólki sem hreinlega langi ekki að eignast börn. Ólöf Garðarsdóttir, forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, ræddi einnig við RÚV í gær og samsinntist þessu. Ólöf sagði Norðurlöndin lengi hafa skorið sig úr á heimsvísu þar sem reynt var að auðvelda bæði körlum og konum að sameina vinnu og barneignir. Það sé greinilega liðin tíð.

Sunna segir hinn þáttinn vera auknar kröfur meðal ungra kvenna sem hún hefur rannsakað um meiri undirbúning og hárréttar aðstæður áður en þær eignist börn. „Þurfi að vera í réttu vinnunni, rétta sambandinu, réttu íbúðinni, búnar að ná að upplifa það sem þær langar að upplifa áður en foreldrahlutverkið tekur við.“ Þá séu fleiri ungar konur en áður sem upplifi „móðurhlutverkið sem mjög krefjandi og kannski tímafrekara og flóknara en áður þekktist“.

Nú má velta fyrir sér hvort þessir tveir þættir sem Sunna nefnir séu kannski tengdir að einhverju leyti. Það er ljóst að krafan um aukinn undirbúning og betri aðstæður í lífinu eru efnahagslega knúnar. Það er ekki tekið út með sældinni í dag að eignast börn þegar foreldrar eru ungir, kannski á leigumarkaði, með tekjur sem varla duga fyrir húsnæðiskostnaði og augljóst að mikið hark er í vændum þegar barn bætist inn í jöfnuna, því nægt er harkið nú til dags án barneigna. Þar er verðbólgukreppan skæð en húsnæðiskreppan teygir sig aftur rúman áratug, til áranna eftir Hrun og hefur bara versnað statt og stöðugt síðan. Skortur á leikskólaplássum, skortur á húsnæði, hnignandi innviðir heilbrigðiskerfis og velferðarkerfa, allt spilar það inn í.

Þess vegna er hægt að ímynda sér að einhver hluti þess fólks sem hafi hreinlega ekki áhuga á að eignast börn horfi til slíkra þátta líka sem letjandi. Hvers vegna að eignast börn til þess eins að neyðast til að harka það sem eftir er og ala barnið sitt upp í fátækt? Það er orðinn veruleiki margra í dag. Einstæðir foreldrar hafa ekki efni á því að reka heimili lengur í dag eins og nýleg úttekt Heimildarinnar fjallaði vel og rækilega um. Þar var rætt við marga einstæða (eða sjálfstæða) foreldra, bæði á láglauna- og millitekjum, sem lýstu því hreinlega að þurfa að vinna myrkanna á milli bara til þess að ná endum saman og stundum dugir það ekki heldur.

Það virðist sem þetta séu augljós sannindi meðal netverja, en fréttir um þetta fall í fæðingartíðni hafa vakið mikla athygli og athugasemdir eru fjöldamargar. Undir einni frétt Vísis um málið voru vel yfir hundrað athugasemdir ritaðar og langflestar með tugi þumla og viðbragða.

Netverjar eiga ekki erfitt með að sjá hið augljósa.

„Enginn hefur efni á húsnæði og börnum“, sagði ein kona. „Skortur á leikskólaplássi og dagmömmum, rándýr leiga og gríðarlegur húsnæðisvandi um allt land, handónýtt heilbrigðiskerfi..alveg tilvalnar aðstæður til að eignast barn!!“ sagði önnur.

Ráðgátan eins og fyrri daginn er að velta fyrir sér hvenær stjórnvöld hyggist ætla að gera eitthvað í þessum augljósu vandamálum. Það er ljóst að meira að segja auðræðið þarf á starfsfólki að halda, svo það mætti halda að það væri þeim í hag að hið minnsta búa svo um hnútana að hér haldist fæðingartíðni í lagi. Skammsýni gróðabraskara og hugmyndafræðilega gjaldþrota auðvaldsflokka er þó slík að það er erfitt fyrir það fólk að sjá annað en þeirra eigin persónulegu hagsmuni í núinu. Því verða fjármagnseigendur ekki skattlagðir og það verður ekki fjárfest í innviðum og húsnæði þó svo að þörfin fyrir samfélagið allt blasi við.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí