Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, leikur víst á alls oddi í Bretlandi núna en hún fór í ferð til Bretlands til að aðstoða Verkamannaflokkinn í kosningabaráttu sinni og til að fagna með þeim sigri.
„Það er fyrst og fremst mikil eftirvænting í loftinu og fólk að vonast eftir breytingum. Við erum auðvitað að horfa upp á óvinsæla ríkisstjórn og mikil valdþreyta eftir fjórtán ár af forystu Íhaldsflokksins“, sagði Kristrún í viðtali við Vísi í dag.
Kristrún var þó ekki búin og sagði það „áþreifanlegt að fólk sér að það hafa orðið miklar breytingar á Verkamannaflokknum undir forystu Keirs Starmers“.
Verkamannaflokkurinn hefur úthýst öllu því sem kalla mætti vinstristefnu úr flokknum, bæði frambjóðendum, sitjandi þingmönnum og stefnumálum og þeirra í stað sett hægristefnu á oddinn sem og fulltrúa úr einkageiranum, fjárfesta og athafnamenn, sem frambjóðendur.
Fyrrverandi formanni flokksins, Jeremy Corbyn var bolað út úr honum eftir margra áratuga veru í flokknum og býður sig fram sem sjálfstæður frambjóðandi. Mótframbjóðandi hans frá Verkamannaflokknum í kjördæminu er milljónamæringur sem græddi grimmt á einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu.
Keir Starmer hefur sjálfur gengið á bak orða sinna og gagnrýnt Corbyn harðlega undanfarin misseri, en áður, undir forystu Corbyns, dásamaði hann stefnu hans og persónu. Þá hefur Starmer einblínt á hægri stefnu í efnahagsmálum, neitað að hækka nokkurs konar skatta á auðvaldið, dregið til baka loforð um úrbætur í velferðarmálum, innviðum og lækkun skólagjalda. Loforð Verkamannaflokksins um aukin fjárútlát til heilbrigðiskerfisins eru þannig minni upphæð heldur en eytt var á tímum harkalegs niðurskurðar í kjölfar efnahagshrunsins 2008.
Kristrún er engu að síður spennt yfir horfunum og fagnar greinilega breytingum Starmers á flokknum sem henni sýnist hafa verið til góðs.
Aðspurð vonast Kristrún til að hitta Starmer í kosningaveislu í kvöld, en hefur hingað til fundað með öðru háttsettu fólki í Verkamannaflokknum. Kristrún hefur þó hjálpað til: „Við erum líka búin að vera að hitta fólkið í landinu hérna, banka á dyr, hjálpa til við að sækja atkvæði heim og eiga samtalið við fólkið sem býr hérna. Og ekki bara í London heldur fólk líka í bæjum hérna á svæðinu.“