Matvöruhækkanir ekki „kaupmanninum“ að kenna – Hagar og Festi skila margra milljarða hagnaði

Matvöruverð ekki kaupmönnum að kenna, segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, við RÚV. Innlend framleiðsla og fraktflutningar séu ástæða hækkana. 1% hækkun matarkörfunnar, ásamt húsnæðisverðum og öðrum þáttum voru hvað veigamestir í að valda hækkun á verðbólgunni á milli mánaða.

Andrés er í forsvari fyrir heildarsamtök gríðarlegs fjölda fyrirtækja og er eðli málsins samkvæmt í vinnu við það að koma þeim til varnar.

Það má hins vegar staldra við og greina þessa framsetningu Andrésar. Þegar orðfærið „kaupmenn“ er notað þá er verið að búa til ímynd í hugum almennings um góðhjartaðan og góðviljaðan kaupmann á horninu. Einhvers konar staðalímynd nærumhverfisins sem er ekki lengur til nema í fáeinum undantekningartilfellum.

Þegar matarkarfan hækkar um 1% á milli mánaða þá eru það ekki fyrirtæki eins og Melabúðin eða bræðurnir Gunnar og Kristján í Kjötborg sem eru að valda þeim hækkunum. Það eru stórfyrirtæki eins og Hagar sem eiga Hagkaup og Bónus, eða Festi sem eiga Krónuna. Bæði Festi og Hagar eru í Samtökum verslunar og þjónustu og verandi gríðarstór á íslenskum markaði, afar áhrifamikil innan samtakanna. Það gefur auga leið.

Það er auðvitað líka staðreynd að verð úti í heimi breytast líka, þannig að þegar að við flytjum inn vörur þá geta þær verið á breytilegu verði og stundum hækkað. Rétt. Þegar óðaverðbólga ríkir innanlands þá er það samt svo að risar á matvörumarkaði eins og Bónus, Hagkaup og Krónan, bera gríðarlega ábyrgð að velta þeim hækkunum ekki beint út í verðlagið. Þá er það sérstaklega mikilvægt að athuga að umræddir matvörurisar eru ekki í erfiðleikum. Eigendur þeirra hjá Högum högnuðust um 5 milljarða á síðasta ári og eigendurnir hjá Festi högnuðust um 4,1 milljarða á sama tíma.

Gríðarmikill hagnaður á sama tíma og verð hækka á milli hverrar búðarferðar fyrir almenning þýðir einfaldlega það að vísanir í fraktflutninga og innlenda framleiðslu er rökleysa. Það fer ekki saman hljóð og mynd í þessu tilfelli.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra gagnrýndi verslanirnar í færslu á Facebook-síðu sinni og sagði hækkun verðbólgunnar vonbrigði. Verslanir gætu ekki verið stikkfrí.

Það er einmitt vel þess virði að hafa slíkar fréttir ávallt í samhengi þess að nýsamþykktir kjarasamningar snerust um eitt atriði ofar öllu, að hjálpast að við að ná verðbólgunni niður. Launafólk tók á sig launaskerðingar, með tilliti til uppsafnaðrar verðbólgu þá. Ríkið kom að borðinu með aðrar aðgerðir til að liðka fyrir því. Fyrirtækin áttu þá að halda aftur af verðhækkunum á móti. Það hefur ekki raungerst, enda ókyrrast nú verkalýðsleiðtogar eins og Ragnar Þór Ingólfsson og Vilhjálmur Birgisson og reifa það að slíta kjarasamningum á næsta ári, þar sem forsendur þeirra séu brostnar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí