Leikkonan Ólafaía Hrönn Jónsdóttir eða Lolla eins og hún er oft kölluð, lenti í því í gær að hjálpa dreng á hjóli að koma poka með þungum vörum heim til sín úr matvörubúð. Hún var þjófkennd á Internetinu med det samme.
Forsaga málsins er að kona nokkur sendi 12 ára gamlan son sinn út í Nettó á höfuðborgarsvæðinu til að kaupa vörur. Þar sem hann var að vesenast að setja fullan innkaupapokann á hjólið sitt bar að konu sem bauðst til að skutla pokanum heim til drengsins.
Drengurinn þáði hjálp konunnar. Ekki vildi þó betur til en svo að misskilningur kom upp um afhendingarstað. Beið drengurinn eftir konunni og vörupokanum án árangurs en gekk svo hnípinn inn til sín og sagði mömmu sinni frá atvikinu.
Mamma hans brást við með að skrifa pistil á samfélagsmiðla og varaði granna sína við miðaldra konunni, sem væri að ræna morgunkorni og fleiri vörum af börnum. Reið mikil illinda- og hneykslisbylgja yfir facebook og þótti mörgum sem met hefði verið sett í lágkúru glæpa að hlunnfara börn með slíkum hætti.
Kom svo á daginn að konan var engin önnur en Ólafía Hrönn leikkona og hún hafði leitað og leitað að drengnum og heimilisfanginu eftir að þau urðu viðskila. Þegar hún fann loks húsið og vörurnar skiluðu sér, var móðir drengsins ekki sein á sér að skrifa nýjan og afsakandi pistil, enda hafði leikkonunni ekki orðið annað á en að sýna sérstaka velvild og hjálpsemi.