Líkt og Heimildin greindi frá í gær þá hafa Píratar ákveðið að leggja niður Facebook-hópin Pírataspjallið 2. Sá hópur taldi um 12 þúsund meðlimi en nú er ekki lengur hægt að skrifa innlegg inn í þann hóp. Fyrir nokkrum mánuðum greindi Samstöðin frá því að þetta stæði til og nú virðist það hafa orðið raunin.
Ekki eru allir sáttir með þessa ákvörðun en þar á meðal er Einar Steingrímsson stærðfræðingur en hann var nokkuð virkur á Pírataspjallinu þegar það var og hét. „Þennan legstein yfir Pírata, hreyfingu sem sagði skilið við yfirlýsta grunnstefnu sína fyrir mörgum árum, hefði mátt setja á gröfina miklu fyrr, enda eigendur hreyfingarinnar, eins og annarra staðnaðra flokka, löngu hættir að nenna að tala við almenning,“ skrifar Einar á Facebok.
Hann er svo spurður hvort hann sé sjálfur orðinn afhuga Pírötum enda héldu margir að hann styddi þá. „Píratar, þ.e.a.s. þeir sem ráða lögum og lofum í hreyfingunni, urðu fyrir ansi löngu afhuga öllu því sem felst í meintri grunnstefnu hennar. Þetta er löngu orðinn hefðbundinn flokkur sem snýst um að forystan haldi í huggulegu þing- og borgarstjórnasætin,“ svarar Einar.