Skiptar skoðanir um bílakaup Höllu Tómasdóttur – Forstjóri Brimborgar er meðal útvaldra gesta við embættistökuna

Skiptar skoðanir eru á Facebook-færslu vegna kaupa verðandi forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur og eiginmanns hennar á bíl frá Brimborg á sérkjörum. Halla og Björn eiginmaður hennar eru ýmist harðlega gagnrýnd fyrir athæfið eða málið talið stormur í vatnsglasi.

Halla og Björn keyptu sumsé rafbíl frá bílasölunni Brimborg en kaupin voru sérstaklega auglýst á Facebook-síðu fyrirtækisins þar sem forstjóri Brimborgar, Egill Jóhannsson, var með á myndinni með forsetahjónunum verðandi við hlið bílsins.

Í samtali við Ríkisútvarpið og mbl.is kom svo fram að Halla og Björn fengu sérkjör við kaupin þó ekki var gefið upp hver þau voru. Egill heldur því fram að slíkt sé eðlilegt, því langtímaviðskiptavinir Brimborgar fái oft slík sérkjör. Þá sé hann, Halla og Björn, gamlir kunningjar.

Í færslunni á Facebook með myndinni af þeim þremur fylgdi svo ítarlegur texti um ágæti bílsins og því má greinilega sjá að myndin var nýtt sem markaðsefni og auglýsing. Brimborg hefur síðan fréttaflutningur af málinu barst í dag eytt færslunni.

Skjáskot af færslunni sem nú er búið að eyða af Facebook-síðu Brimborgar.

Velta má fyrir sér hvort slíkt athæfi sé viðeigandi fyrir manneskju sem er lýðræðislega kjörin í embætti, að taka sérstaklega og persónulega þátt í auglýsingu fyrir fyrirtæki og hljóta sérkjör á kaupum sínum.

Í það minnsta fór þetta öfugt ofan í marga lesendur ef marka má athugasemdir undir frétt RÚV.

„Eitt er að fyrirtæki vilji flagga þessum viðskiptum en annað að forsetahjónin verðandi skuli hafa samþykkt þessa smekkleysu!“ Svo mælir ein manneskja í athugasemd sem fékk mikinn stuðning.

„Ömurleg auglýsingamennska sem er ekki við hæfi þess sem tekur við embætti forseta landsins og þessi mynd fær falleinkunn og dapurlegt að hjónin taki þátt í þessu“, segir í annarri athugasemd.

Aðrir eru ósammála þó greinilegt er að þær athugasemdir fái minni undirtektir. „Hvað kemur þetta okkur við“, spyr einn og heldur áfram: „Ef Brimborg vill gefa föstum viðskiptavinum sínum afslátt þá er það bara þeirra mál. Þar að auki ef ég ætti bílaumboð myndi ég líta svo á að það sé góð auglýsing ef forseti Íslands rúllar um göturnar á bíl frá mér. Það er bara ekkert óeðlilegt hérna á ferðinni. Áfram Halla og Brimborg.“

Sumir segja þetta óþarfa gagnrýni, „vælt yfir öllu“ segir einn og „jæja hérna. Öllu má nú grenja yfir“, segir annar.

„Dómgreindarleysi. Vonandi ekki það sem koma skal“, segir í enn annarri athugasemd. „Þau féllu á fyrsta prófinu létu misnota sig“, segir einn annar.

Ein athugasemd veltir svo upp áhugaverðu atviki. Viðkomandi segist hafa verið áminntur af forsetaembættinu fyrir að taka mynd af bifreið fyrirtækis með Bessastaði í bakgrunni, eftir að myndin var birt á Facebook. „Ritari foresta tjáði mér að aldrei ætti tengja Forsetaembættið við vörur.“

Það er óvíst hvort um þetta gildi ákveðnar reglur og þá hvort það sama eigi við um verðandi forseta sem hefur ekki enn tekið við embætti. Hitt er álitamál hvort þetta uppátæki fari yfir einhvers konar siðferðisleg mörk eða séu á gráu svæði.

Vísir hefur svo birt nýja afhjúpun þess efnis að Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, er einn á lista útvaldra þeirra sem boðið verður sérstaklega til að horfa á af skjá þegar Halla ritar undir drengskaparheit sín við embættistöku forseta. Listinn gengur undir nafninu Smiðjulistinn og er hann birtur í umfjöllun Vísis. Ýmislegt framáfólk og athafnafólk úr íslensku viðskiptalífi prýðir listann.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí