Svo róttæk breyting hefur orðið á háttum barna, ekki síst með tilkomu snjallsíma, að hægt er að tala um faraldur geðsjúkdóma í röðum barna og unglinga.
Þetta kemur fram í bók eftir bandarískan sálfræðing, Jonathan Haidt, sem verið hefur til umfjöllunar innanlands síðustu daga. Í bókinni leggur Haidt fram fern róttæk úrræði:
- Engir snjallsímar fyrir 14 ára aldur.
- Engir samskiptamiðlar fyrir 16 ára aldur.
- Engir snjallsímar í grunn- og framhaldsskólum.
- Mun meira af frjálsum leikjum án eftirlits og afskipta fullorðinna.
Bókin nefnist The anxious generation: How the great rewiring of childhood is causing an epidemic of mental illness.
Hún kemur í kjölfar umræðu innan Evrópusambandsins og á fleiri vígstöðvum þar sem rætt er að versnandi geðheilsa unglinga sé stærsta heilsufarsvandamál samtímans.
Í bókardómi Atla Harðarsonar kennara á Vísi segir að bókin eigi brýnt erindi við alla sem láta sig varða velferð barna og unglinga.
„Við sem störfum í skólum höfum líklega flest orðið vör við vaxandi kvíða og þunglyndi meðal ungmenna. Tölfræðileg gögn um lyfjanotkun benda líka til að þessir sjúkdómar herji í auknum mæli á ungt fólk,“ segir Atli.
Í bókinni bendir Haidt á að tíðni kvíða og þunglyndis meðal ungmenna jókst víða um heim eftir 2010. Því sé ósennilegt að orsakirnar séu staðbundin vandamál.
Milli 2010 og 2015 jókst tíðni þunglyndis og kvíða meira hjá stúlkum en piltum. Hins vegar hnignaði námsárangri pilta meira en stúlkna og hjá þeim varð ofvirkni og athyglisbrestur líka stærra vandamál.
Með snjallsímunum hefur tími til frjálsra leikja orðið enn minni ella. Meðal bandarískra ungmenna á aldrinum 10 til 20 ára fór tími með vinum í raunheimum úr því að vera að jafnaði um tvær klukkustundir á dag 2012 niður í rétt rúma klukkustund á dag 2019.
„Áhrif snjallsímanna bættust þannig við breytingu sem varð undir lok síðustu aldar og tengdist auknum áherslum á fullkomið öryggi og algerlega hættulaust umhverfi fyrir börn. Haidt kallar þetta „safetyism.“ Ef til vill ætti það að heita öryggisárátta á íslensku. Hún rænir börn reynslu sem gerir þeim mögulegt að bregðast skynsamlega við hættum og eykur því hreint ekki raunverulegt öryggi þeirra. Svo rammt kveður að þessari áráttu að víða er börnum bannað að leika sér úti með jafnöldum og skólar hafa dregið úr útiveru og leikjum í frímínútum,“ segir í grein Atla.
Sjá nánar hér:
Á sama tíma og börnin eru pössuð allt of mikið í raunheimum hafa þeir sem reka gróðadrifnar þankamyllur í netheimum ótakmarkaðan aðgang að athygli þeirra og vitund.