Búið er að ganga frá kaupum Kaupfélags Skagfirðinga á hlut Búsældar og Kjarnafæðisbræðra þeirra Eiðs og Hreins Gunnlaugssonar í Kjarnafæði-Norðlenska.
Boðað verður til fundar í fyrramálið eftir því sem fram kemur á héraðsfréttamiðlinum vikubladid.is á Akureyri, sem sagði fyrst frá kaupunum.
Meira en 100 manns fara nú undir atvinnuhatt KS til viðbótar öðrum sem voru fyrir. Félagið hefur verið með starfsstöðvar á Akureyri, Svalbarðseyri, Húsavík og Blönduósi.
Fulltrúar Samtaka atvinnurekenda, VR og Neytendasamtakanna voru mjög ósáttir við búvörulög sem voru samþykkt fyrir nokkrum vikum. Fyrirtæki í kjötiðnaði eru með frumvarpinu undanþegin samkeppnislögum á kostnað neytenda. Verður ekki annað séð en að yfirtakan nú sé gerð á grunni nýju laganna. Fulltrúarnir sögðu frumvarpið dæmi um hreina spillingu í samtali við Samstöðina. Þau orð fá vægi nú við þessar breytingar.
„Þetta er mjög ósvífið. Fæstir áttu von á aðÞórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri KS yrði svo snöggur að nýta sér nýju búvörulögin,“ segir ósáttur starfsmaður Kjarnafæðis sem óskar nafnleyndar í samtali við blaðamann Samstöðvarinnar.
Sjá frétt Vikublaðsins hér: https://www.vikubladid.is/is/frettir/kaupfelag-skagfirdinga-kaupir-kjarnafaedi-nordlenska-1