Leiðrétting: Í upprunalegu fréttinni var talað um að sumir þingmenn stjórnarandstöðunnar hefðu samþykkt búvörulögin, sem er rangt. Jóhann Páll, þingmaður Samfylkingarinnar, hafði stutt málið út úr nefnd en ekki áttað sig á breytingunum sem gerðar voru á frumvarpinu á milli umræðna. Hann, ásamt þingflokki Samfylkingarinnar, Pírata, Viðreisnar og Flokki fólksins kusu gegn frumvarpinu í lokin og gagnrýndu það harðlega. Sérstök frávísunartillaga Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar var einnig felld af ríkisstjórninni. Þessar umdeildu breytingar á búvörulögunum mættu því sannarlega mikilli gagnrýni og andstöðu, þar sem bent var á augljósa vankanta og ríkisstjórninni gefið tækifæri til að taka það til umfjöllunar, en því var hafnað algerlega.
Salan á Norðlenska-Kjarnafæði til Kaupfélags Skagfirðinga er dæmi um spillingu, segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR í samtali við Samstöðina. Málið er fullkomið dæmi um það sem búast mátti við með samþykkt búvörulaganna á Alþingi síðasta vetur, en á milli umræðna um frumvarpið komu lögmenn og forsvarsmenn Samtaka fyrirtækja í landbúnaði að málinu, breyttu ákvæðum í lögunum sem voru síðan samþykkt án þess að farið væri aftur í umsagnarferli og þrjár umræður á þingi eins og skylda er til.
Breytingin varðar einfaldlega það að afurðastöðvar eru undanþegnar samkeppnislögum. Sem þýðir það að ef að afurðastöð, svo sem Kaupfélag Skagfirðinga, vill, þá getur hún keypt upp allar samkeppnisaðila sína án þess að Samkeppniseftirlitið geti lyft fingri gegn því.
Ragnar Þór segir kaup KS á fyrirtækinu Norðlenska-Kjarnafæði vera nákvæmlega það sem hann og fleiri vöruðu við vegna laganna. VR, Neytendasamtökin og Félag atvinnurekenda sendu erindi á sínum tíma til matvælaráðherra, sem þá var gegnt af Katrínu Jakobsdóttur, um að lögin yrðu endurskoðuð, enda eru „hin nýju lög ólög“.
Ragnar segir ekkert raunverulegt svar hafa borist við erindum þeirra og áhyggjum. „Pólitíkin sá um sína, sem eru sérhagsmunir, ekki fólkið í landinu.“
Ragnar segir það ljóst að eitthvað hafi búið að baki þessari skyndilegu breytingu á lögunum, „það blasti við að það hékk eitthvað á spýtunni“. Það sé að raungerast nú. Kaupin á Norðlenska-Kjarnafæði hefðu ekki getað gengið í gegn án samþykkt Samkeppniseftirlitsins áður en lögunum var breytt. Aðeins nokkrum mánuðum eftir að breyttum lögum var komið í gegnum þingið, þá eru þessi kaup tilkynnt. „Menn eru ekkert að tvínóna við hlutina“, segir Ragnar.
Í fréttum um málið í dag, meðal annars hér á Samtöðinni, hefur verið fjallað um það hvernig Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður atvinnuveganefndar, nefndinni sem búvörulögin fóru í gegnum, á sjálfur hagsmuna að gæta í málinu.
Þórarinn á 0,8% hlut í Búsæld ehf. og sinnir þar launuðum störfum í stjórn félagsins, samkvæmt hagsmunaskrá Alþingis. Búsæld ehf. á svo 43% hlut í Norðlenska-Kjarnafæði. Þórarinn er sá sem vann svo með lögmönnum og forsvarsmönnum Samtaka fyrirtækja í landbúnaði í atvinnuveganefnd að því að koma þessari umræddu og umdeildu breytingu í búvörulögin.
Þórarinn sat því beggja megin borðsins. Hann samdi umrædda breytingu á lögunum, sem gerðu Kaupfélagi Skagfirðinga kleift að kaupa fyrirtækið sem hann sjálfur á eignarhlut í.
„Í öllum siðmenntuðum löndum, löndum sem við berum okkur saman við, myndi þetta kalla á tafarlausa afsögn hans og algera endurskoðun þessara laga“, segir Ragnar Þór. „Líklegast verður það ekki gert á okkar litlu spillingareyju.“
Það sé fullkomlega ljóst að Þórarinn var vanhæfur í málinu, með bæði sér- og eiginhagsmuni að gæta. „Það er ekki langt síðan faðir fjármálaráðherra keypti hlut í Íslandsbanka“, segir Ragnar. Þetta sé allt úr sama ranni. „Aðilar, hvort sem þeir kaupa ríkiseignir á sérkjörum eða þetta sem er bara svo forhert, það er formaður nefndarinnar sem sinnir þessu máli frá A til Ö og getur ekki falið sig á bak við nefnir eða bankaráð eða bankasýslu.“
Þetta mál sé með ólíkindum segir Ragnar, „spilling í sinni tærustu mynd“. Ömurlegt sé að þurfa að stöðugt eyða tíma og orku í að berjast gegn svona spillingu þegar mörg mikilvæg mál sitja á hakanum, líkt og húsnæðismálin.