Íbúar landsins, einkum norðanlands og austan, ættu kannski að huga að ferðalögum út fyrir landsteinana – eða skreppa suður til Reykjavíkur – ef þeir finna knýjandi þörf til að sjá sólina og komast úr sudda og þoku í þessum helsta sumarmánuði landsmanna., júlí.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að langtímaspáin sé ekkert sérstök. Hún er samt skárri þó næstu daga sunnanlands og vestan en fyrir norðan og austan. Lítið mun fara fyrir bongóblíðu. Vænta má veðurs sem Einar lýsir sem „daufgerðu og fremur svölu“.
„Segja verður hlutina eins og þeir birtast ,“ segir hann.
Á veðurvef Einars, Bliku, sést að sæmilegt veður verður sunnanlands samanber spákortið sem fylgir fréttinni hér að neðan. En hæg norðanátt verður ríkjandi fram á sunnudag.
Sólin mun láta sjá sig við og við nálægt höfuðborgarsvæðinu. Hiti 16 til 18 stig þegar best lætur.
Svalt verður aftur á móti norðan- og austantil, 6 til 10 stiga hiti. Lengst af þungbúið og verður þokusuddi algengt veðurlag, að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings.
Ekki bætir úr skák að húðlæknar vara nú sem aldrei fyrr við notkun ljósabekkja á sólbaðsstofum og banna nefsprey sem getur aukið brúnku. Horfir í að margir landar þurfi að sætta sig við næpuna. Tanið bíður – a.m.k. um skeið!