Vararíkissaksóknari segir aðra menningarheima vera „ósiði“ sem skilji bara „hnefann“

Helgi Valur Magnússon, vararíkissaksóknari, fór með afar undarleg orð í kjölfar dóms á hendur Mohamad Kourani. Einhverra hluta vegna sló hann í mikinn útlendingaandúðartón þegar hann var spurður um dóminn og ýjaði að því aðrir menningarheimar skildu bara ofbeldi.

Kourani er eins og margir vita stórhættulegur maður sem hefur langa sögu afbrota sem hann hefur framið hér á landi. Nú síðast stunguárás á tvo menn í versluninni OK Market. Fyrir það hefur hann hlotið átta ára fangelsisdóm sem hann hyggst þó áfrýja.

Helgi Valur hefur sjálfur setið undir líflátshótunum frá Kourani í nokkur ár og er því skiljanlega niðri fyrir gagnvart manninum, en orð hans um aðra menningarheima eru þó fremur sláandi.

„Það eina sem stoppar þá er hnefinn, valdbeiting. Ekki er alls staðar sú sama afstaða til laga og réttar og hjá okkur. En við verðum að sætta okkur við það.“ Þetta sagði Helgi við Vísi.

Kourani sé ýkt dæmi, enda greinilega stjórnlaus brjálæðingur, en að við séum „í stórum stíl að flytja inn kúltúr sem er í mörgu frábrugðinn því sem við þekkjum“, eins og það var orðað í grein Vísis (undirritaðri af „Ritstjórn“). Sem sagt að Kourani sé vissulega ekki fordæmisgefandi fyrir heilan menningarheim, en þó sé samt ástæða til að tengja athæfi hans sem einstaklings á einhvern almennan hátt við menningarheiminn sem hann kemur frá. Þar að auki að ofbeldi sé eina tungumálið sem fólk frá slíkum bakgrunni skilji.

Þetta hlýtur að teljast ótrúlega yfirgengileg alhæfing yfir tugi milljóna manna og heila menningarheima og angar af andúð. Fyrir utan þá augljósu rökvillu að tengja athæfi einstaklinga við eðli hópsins sem þeir tilheyra. Ekki voru allir Norðmenn skyndilega varhugaverðir af því að Breivik framdi hrottalegt fjöldamorð. Það liggur í augum uppi að sams konar málflutningur myndi aldrei viðgangast í því tilfelli. Hví í þessu?

Þá hélt Helgi áfram og tengdi hrottalegt ofbeldi Kourani við leigubílstjóra af einhverjum sökum. „Sjáðu þessa leigubílstjóra, þetta er ekkert voðalega spennandi. Og ekki hægt að afgreiða þetta sem einhverjar undantekningar, þetta er regla; háttsemi sem blasir við okkur frá degi til dags. Við erum að flytja inn ósiði. Við eigum auðvitað okkar drullusokka og þarna innan um er fullt af góðu fólki líka,“ segir Helgi. 

Donald Trump hóf framboð sitt til forseta árið 2016 með nú orðið frægri ræðu. Í henni sagði Trump orðrétt: „Þegar Mexíkó sendir fólkið sitt, þá er það ekki að senda það besta…. Þeir koma með eiturlyf, þeir koma með glæpi, þeir eru nauðgarar. Og sumt, gef ég mér, eru gott fólk.“

Þá er sagt í grein Vísis (af „Ritstjórn“) að Helgi hafi bætt því við „að það blasi við að menning sumra þessara samfélaga stangist illilega á við okkar gildi og samfélagssáttmála“.

Eitthvað þarf vararíkissaksóknari að hugsa sinn gang þegar hann er byrjaður að hljóma eins og fasískur fyrrum forseti Bandaríkjanna. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem hann talar svona fantalega um hælisleitendur og aðra menningarheima, en árið 2022 fékk hann áminningu frá ríkissaksóknara vegna orða sinna um hinsegin hælisleitendur sem hann sagði „auðvitað ljúga“ og að þeir ljúgi sig til landsins til að fá peninga. Ljóst er að slíkar skoðanir manns í jafn mikilvægu opinberu embætti og Helgi gegnir er umhugsunarverðar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí