Hjúkrunarfræðingurinn Gígja Skúladóttir segir frá hryllilegum afleiðingum lífskjarakrísunnar á sína persónulegu hagi í færslu á Facebook. Húsnæðislánið hennar losnaði úr föstum vöxtum 1. júní og afborganir af því hafa tvöfaldast síðan. „Hvernig nær fólk endum saman í þessu landi“, spyr Gígja.
Staða Gígju er álík stöðu fjölda annarra um þessar mundir, þar sem lífskjarakrísan hefur leikið gríðarlega marga afar grátt. Gígja segir sína mánaðarlegu greiðslubyrði í dag vera á milli 530-550 þúsund, þar af er langstærsti hlutinn húsnæðislánið.
Hún segist þó hafa verið lánsöm að hafa fest vextina á fasteigninni áður, því „annars væri ég búin að missa fasteignina mína“. Sá samningur tók þó enda 1. júní og þá stökkbreyttust afborganirnar af láninu hennar úr 169 þúsund krónum í 335 þúsund, af 35,7 milljóna króna láni.
Húsnæðislánið er þó ekki allt og sumt segir Gígja, því þá situr allt annað eftir. „Þá á ég enn eftir að borga fasteignagjöld, hússjóð, hita og rafmagn, internet, tryggingar og fleira.“ Gígja nefnir þar ekki matarkostnað sem dæmi, en hann hefur vaxið mjög á verðbólgutímum þar sem matvöruverslanir hækka statt og stöðugt vöruverð sín í hverjum mánuði.
Gígja segir sín einu lán og skuldir verandi húsnæðislánið og LÍN lánið, sem sé „enn annað ruglið“.
Staðan er afleit og óviðunandi að mati Gígju. Hún segist vera ein að borga einungis grunnþarfir sínar sem manneskja, en vegna „ómanneskjulegra“ aðgerða Seðlabankans í „stríði sínu við verðbólgu sem bitnar mest á einstæðingum og barnafjölskyldum þessa lands“, þá furði hún sig á stöðunni.
„Hvernig fer venjulegt fólk af því að lifa á Íslandi þegar grunnþarfirnar eru svona kostnaðarsamar? Ég skil ekki af hverju það er ekki allt brjálað, hvernig getur seðlabankastjórinn réttlætt þessar aðgerðir og þjóðin bara samþykkt þær og borgað hundruð þúsunda aukalega á mánuði?“
Gígja deildi einnig mynd með af reikningum sínum til útskýringar:
Þessi raunveruleiki er margra þessa dagana, enda ekki skrítið að tíðni barneigna hafi hreinlega hrunið undanfarið. Í þeirri umræðu hefur margoft komið fram að ungt fólk sér hreinlega ekki fram á að geta átt bæði við kostnaðinn sem fylgi því að lifa á Íslandi í dag og kostnaðinum við það að eignast börn, það tvennt fari hreinlega ekki saman.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, skrifar athugasemd undir færslu Gígju og segir „pínu ósanngjarnt að skammast út í seðlabankastjóra“, vegna þess að stjórnvöld hafi skilað auðu í aðgerðum gegn verðbólgunni og látið vandann í fangið á Seðlabankanum.
Björn fær fyrir þetta skammir og hörð viðbrögð í athugasemdum, en benda má sjálfsagt á það að hann hefur að vissu leyti rétt fyrir sér. Ríkisstjórnir Katrínar Jakobsdóttur og nú Bjarna Benediktssonar hafa vissulega lítið sem ekkert gert til að lægja verðbólguöldur, né hafa þau gert mikið til að lina þjáningar almennings.
Hins vegar er það einnig svo að aðferðafræði Seðlabankans með notkun stýrivaxta er ekki hreinræktuð vísindi, né eina svarið við meðferð á verðbólgu, heldur er einnig um ákveðna hugmyndafræði þar að ræða. Sú hugmyndafræði gengur út á það að þrengja svo alvarlega að neðri efnahagstíundum landsins að þau hætta að geta keypt og eytt fjármunum og það skapi kólnunaráhrif. Einnig að stýrivextir keyri upp afborganir skulda hjá fyrirtækjum sem þurfi að kæla þenslu sína. Það er þó ljóst að fyrirtæki velta þeim kostnaði að miklum hluta út í verðlagið í staðinn, sem aftur eykur verðbólgu og fyrir almenning er staðan því orðin þannig að allt er orðið dýrara, en þau neyðast til að kaupa og borga samt til þess að draga fram lífið einfaldlega.
Björn Leví hefur því annaðhvort of mikla tröllatrú á þeirri hugmyndafræði Seðlabankans eða eins og fólk í athugasemdum benti á, hvort hann vilji þvinga kastljósið til að beinast í átt stjórnvalda, vegna hagsmuna sinna sem stjórnarandstöðuþingmanns. Það skiptir þó litlu fyrir fólk eins og Gígju, sem er annaðhvort að drukkna í þessum töluðu orðum vegna útgjaldaaukninga eða við það hreinlega að missa húsnæði sitt og lífsviðurværi.
Af þeim sökum, meðal annars, hefur Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR boðað til mótmæla með haustinu og segir bæði ríkisstjórnina og kjarasamningana hafa runnið út á tíma og allar forsendur brostnar.