„Þessi skoðanakönnun er að hluta til afurð þess að Sjálfstæðisflokkurinn tók upp hluta af málflutningi Miðflokksins í útlendingamálum. Í svona tveimur meginn ummælum formannsins síðasta vetur og í kjölfar þess að Samfylkingin tekur skref í sömu átt. Þú notar orðið að það hafi veitt Miðflokknum lögmæti og ég held að það sé rétt.“
Þetta sagði Eiríkur Bergmann stjórnmálaprófessor við Rauða borðið í gær en fór hann, meðal annars, yfir þau sögulegu tíðindi sem urðu í vikunni, þegar Miðflokkurinn mældist stærri en Sjálfstæðisflokkurinn í könnun Maskínu. Í stuttu máli þá segir Eiríkur að Sjálfstæðismenn geti sjálfum sér um kennt. Með því að taka upp harðan málflutning í útlendingamálum á sama tíma og flokkurinn er í ríkisstjórn, með dómsmálaráðuneytið í þokkabót, og því ábyrgur fyrir málaflokknum hafi ráðamenn í Sjálfstæðisflokknum búið til kjöraðstæður fyrir flótta kjósenda til Miðflokksins frá Sjálfstæðisflokknum.
„Málflutningur forystumanna Sjálfstæðisflokksins og málflutningur formanns Samfylkingarinnar veitti orðum Miðflokksmanna í garð aðkomufólks lögmæti og svona réttmæti í umræðunni, sem verður til þess að þröskuldur kjósenda til að styðja Miðflokkinn hann lækkar. Það er þá auðveldari förin frá Sjálfstæðisflokknum, frá Samfylkingunni til að styðja þann sem hefur mestan trúverðugleika í þeim málflutningi, sem eru yfirleitt upphafsmenn málsins, frekar heldur en sporgöngufólkið í hinum flokkunum,“ sagði Eiríkur við Rauða borðið.
Viðtalið við Eirík var þó rétt að byrja og þeir sem vilja fara dýpra ofan í málið geta séð viðtalið í heild sinni hér fyrir neðan.