„Ég áttaði mig á því að það er ekki hægt að hafa áhrif innan Sjálfstæðisflokksins úr grasrótinni og upp. Ákvöðunarvaldið kemur ofan frá og neðan á. Kannski á það við um flesta núverandi flokka.“
Þetta segir Arnar Þór Jónsson, forsetaframbjóðandi og lögmaður, í samtali við Rauða borðið sem sýnt verður í kvöld. Arnar er búinn að stofna Lýðræðisflokkinn. Í kvöld mun hann segja okkur nánar frá flokknum, hægrinu og samfélaginu. Áður en hann tók þá ákvörðun að stofna nýjan flokk þá átti Arnar Þór í viðræðum við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, um að ganga í þann flokk.
Þær viðræður strönduðu, líkt og greint var frá í fjölmiðlum á áberandi hátt. En hvers vegna?
„Margir lögðu til við mig og það var raun þrýst mjög fast á mig að ég myndi kanna þetta með Miðflokkinn. Ég vil segja það hér, svona í ljósi fréttaflutnings síðustu daga, þar sem allskonar hlutum hefur verið hent á loft, að ég gerði engar kröfur gagnvart Miðflokknum um eitt né neitt. Ég fór ekki fram á neina formennsku né varaformennsku. Ég hugði ekki á neina yfirtöku og gerði engar launakröfur. Ég gerði ekki einu sinni kröfu um oddvitasæti,“ segir Arnar Þór.
Hann segir að á endanum hafi einfaldlega komið í ljós að menn voru ekki á sömu blaðsíðu. „Hugmyndir sem aðstoðarmaður minn setti á blað og birti en við fengum aldrei boltan til baka. Á endanum rann þetta út í sandinn. Þetta var vond meðferð á mínum tíma. Þetta voru margir mánuðir,“ segir Arnar Þór en bættir þó við:
„Þetta voru vinsamlegar viðræður og gott að hitta þessa menn að máli, ekkert að því.“
Arnór Þór verður gestur Rauða borðsins í kvöld og mun segja okkur nánar um nýjasta flokk Íslands, Lýðræðisflokkinn.