Kúbverskt par, sem var vísað brott frá Íslandi eftir að hafa dvalið hér um nokkurra missera skeið, var fangelsað og fékk hvorki vott né þurrt meðan þau sátu í steininum og voru svo nauðug flutt með flugi til Kúbu í gegnum París.
Þá voru lyf tekin af fólkinu og takmarkanir gerðar á símanotkun þeirra.
„Okkur var verulega brugðiðð,“ sagði Ragnar Magnússon framhaldsskólakennari sem ræddi brottvísunina við Rauða borðið í gærkvöld. „Þetta var heilmikið áfall.“
Fólkið kom hingað til lands vegna skyldleika við eiginkonu Ragnars, Marjorie. Ragnar segir að fólkið hafi alltaf búist við að fá framlengingu á dvalarheimili, þau hafi starfað við ýmislegt og lagt virka hönd á atvinnuplóg Íslendinga.
Ragnar segir rök Útlendingastofnunar þegar þau synjuðu parinu um frekari vist hér á landi mjög skrýtin og ótraustvekjandi. Viðurkennt hafi verið að ástandið á Kúbu sé mjög varasamt fyrir parið, sem eru á lista yfirvalda á Kúbu eftir mótmæli gegn harðræði, en samt var látið vaða.
„Þau héldu að hér væri draumalandið og voru bjartsýn,“ segir Ragnar. Um það leyti sem kúbverska parið kom til landsins var stríður straumur erlendra borgara, meðal annars frá Venezuela.
„Þau voru ekki að koma hingað til að leggjast á kerfið,“ segir Ragnar og telur galið að fólki sem vill vinna störf sem Íslendingar vilja ekki sjálfir vinna hér á landi hljóti slík örlög.
Hann segir að ástandið á Kúbu sé skelfilegt, þar sé einræði. Óttast þau eiginkona hans mjög um örlög parsins eftir komu til Kúbu.
„Það er svolítið öðruvísi vist í fangelsum í Kúbu en hér. „Ég skil að fólki sé vísað heim sem ekki vill vinna hér eða fremur afbrot,“ segir Ragnar. „En að koma svona fram, mér er mjög brugðið.“
Sjá allt viðtalið: