Gagna aflað hjá sýslumanni vegna fúsks við kosningarnar

Kristján Sveinbjörnsson, umboðsmaður Samfylkingarinnar í SV-kjördæmi, hefur með minniblaði sem hann hefur sent frá sér, mótmælt rökstuðningi landskjörstjórnar sem vill gera sem minnst úr annmörkum kosninga.

Í minnisblaði sem Kristján hefur sent undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kosninga, nefndin er skipuð fulltrúum allra flokka, setur Kristján fram ýmis sjónarmið. Kerfið þarf sem dæmi að gera betur er kemur að atkvæðaseðlum og mati á þeim. Óvissa er um hvort talningin eins og hún stendur nú endurspegli vilja kjósenda.

Eitt af því sem Kristján er ósáttur við er að geðþótti hafi í kosningasögu landsmanna jafnan ráðið ákvörðunum um atkvæði inni í kjördeildum í stað þess að verklag sé staðlað í kosningahandbók. Hann segir matskennt og ekki endilega rökrétt hvort atkvæði telst ógilt eða ekki.  Það sem eigi við í einni kjördeild sé ekki endilega afgreitt með sama hætti í annarri kjördeild. Það sem gerir umræðuna sérlega viðkvæma er að starfsfólk kjörstaða hefur lengstum verið valið úr ranni gömlu valdaflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Landskjörstjórn fékk yfirhalningu hjá MDE ekki alls fyrir löngu vegna talningarmálsins í Borgarnesi. Þingmenn komust að rangri ef ekki spilltri niðurstöðu, enda eru launakjörin góð á Alþingi og ef þingmanni er gefinn kostur á að velja sjálfur hvort hann vill láta niðurstöðu sem tryggir honum sæti á þingi standa eða ekki, liggur valið fyrir í flestum tilvikum.

Fleiri agnúa hefur Kristján nefnt. Í samtali við Samstöðina í vikunni sagði hann að tengsl væru milli Kristínar Edwald, formanns landskjörstjórnar, við Sjálfstæðisflokkinn og vinátta milli hennar og fyrrverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar. Kristján segir aðspurður að Ísland þurfi erlenda skoðunarmenn til að vera viðstadda talningu atkvæða og fylgjast með meðferð kjörgagna Með öðrum orðum leiki fullkominn vafi á hvenær fúsk verður spilling. Rafræn kosning kunni að vera lausnin í framtíðinni, en hún sé ekki ágallalaus.

Kristján fer þess nú á leit við undirbúningsnefndina með bréfi að hann fái að sitja fund með nefndinni og ræða málið milliliðalaust. Atkvæðin sem týndust fyrir norðan án þess að kerfið ætli að rannsaka hve mörg þau voru er eitt af því sem hann vill að verði sett á dagskrá. Kassi með atkvæðum kom fram á Akureyri en ekki fyrr en eftir talningu. Í minnisblaði Kristjáns segir:

„Þá tel ég nauðsynlegt að upplýst verði hve mörg utankjörfundaratkvæði eru
vistuð í kjörkassanum sem týndist á Akureyrarflugvelli.
Líklega má telja að sendandinn, Sýslumaðurinn á Höfuðborgarsvæðinu hafi
upplýsingar um atkvæðafjöldann.“

Kristján hefur sagt á Samstöðinni, þar sem hann hefur í tvígang lýst gagnrýni sinni á fúskið á kjörstöðum, að mögulega hefðu aðeins fjögur atkvæði breytt endanlegri útkomu þingmanna í Reykjavíkurkjördæmunum. „Miklar líkur á að niðurstaðan hefði orðið önnur.“

Alþingi verður að líkindum sett 4. febrúar næstkomandi, væntanlega í óvissu hvort allir kjörnir fulltrúar á þinginu séu raunverulega þeir sem þjóðin kaus.

Ekki er þó hægt að fullyrða að endurtalning eða réttlátari aðferðir við mat á gildum atkvæðum svo dæmi sé tekið, hefði í kosningunum 30. nóvember sl. breytt fjölda kjörinna þingmanna innan stjórnmálaflokka.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí