Fjölmargir hafa minnst Ellerts B. Schram síðan tilkynnt var um andlát hans fyrr í dag. Ellert lést í nótt eftir þrálát og alvarleg veikindi.
Helga Vala Helgadóttir lögmaður og fyrrum þingkona skrifar á facebook:
„Það var einstakt að fá hann inn á þing í lok árs 2018 og fá þar að kynnast af alvöru sjentilmanninum Ellerti, goðsögninni sjálfri úr Vesturbænum. Ég tók, einhverra hluta vegna, á móti honum þegar hann kom til þingstarfanna með okkur í þingflokki Samfylkingarinnar, rölti með honum um húsið sem var auðvitað hans heimavöllur þar sem hann þekkti alla. Iðulega hvarf hann, og hafði þá lent á kjaftatörn með Helga Bern eða öðru eðalfólki. Það var öllum ljóst að þarna var mættur margsigldur höfðingi sem lét ekki smámál trufla sig.“
Vísir hefur andlátsfrétt sína um Ellert með eftirfarandi orðum:
„Ellert B. Schram, fyrrverandi alþingismaður, ritstjóri, rithöfundur og einhver glæsilegasti íþróttamaður sem Ísland hefur alið, er fallinn frá 85 ára að aldri.“
Þingferill Ellerts hófst árið 1971. Með hléum tók hann síðast sæti á Alþingi árið 2019. Slagar því nærri að pólitískur ferill hafi varað í hálfa öld og eru þá ótalin íþróttaafrekin og fjölmiðla- og félagsstörf.