Fyrrum formaður SÁÁ, Gunnar Smári Egilsson, segir að rannsaka verði hérlendis hvernig neysla áfengis dreifist á notendur. Hans spá er að 20 prósent landsmanna drekki 90prósent af heildarmagni áfengis árlega.
„Með öðrum orðum að virkir alkóhólistar og fólk í alvarlegri ofneyslu, fólk sem er í sjúklegri neyslu og skaðlegri, keyri áfram áfengismarkaðinn,“ segir Gunnar Smári í færslu á facebook. „En ekki hófdrykkjufólkið, eins og bruggarar og sprúttsalar vilja halda fram. Og það stjórnmálafólk sem vinnur fyrir sprúttsala með það að markmiði að auka aðgengi og þar með neyslu og þar með veikindi, slys, dauða og óheyrilegan samfélagslegan kostnað vegna þessa eiturlyfs.“

Ef rétt reynist hjá formanninum fyrrverandi eru sölurök þeirra sem vilja að einkaaðilar geti selt áfengi alla daga ársins og jafnvel á næturnar líka afar veik.
Gunnar Smári vísar í færslu sinni til fréttar Viðskiptablaðsins þar sem segir að áfengisframleiðendur séu háðir ofdrykkjumönnum.