Gylfi Magnússon hagfræðingur, sem eitt sinn var efnahags- og viðskiptaráðherra, gefur lítið fyrir málflutning Samtaka atvinnulífsins um hvernig íslenska ríkið geti sparað pening með eignasölu.
„Fullyrðing SA um að ríkið geti sparað stórfé með sölu banka því að þá geti það greitt niður lán og þar með losnað við vaxtagreiðslur er skemmtilega óskammfeilin. Arðgreiðslur bankanna til ríkisins hafa nefnilega verið mun hærri en sem nemur hugsanlegum vaxtasparnaði,“ segir Gylfi og fylgir eftir með útreikningi
„Gróft áætlað gæti ríkið fengið 400 milljarða fyrir Landsbankann og sinn hlut í Íslandsbanka. Ríkið getur nú fjármagnað sig á u.þ.b. 2,6 til 4,4% verðtryggðum vöxtum (og væntingar um að slíkir vextir fari lækkandi). Með því að greiða upp slíkar skuldir fyrir 400 ma. myndi ríkið því spara sér 10-18 ma. á ári í vaxtagreiðslum. Arður ríkisins frá bönkunum í fyrra var hins vegar 22 milljarðar,“ segir Gylfi á facebook.