Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, slær nýjan tón með því að hrósa einum af ráðherrum meirihlutans, þótt Halla Hrund sé ekki hluti af ríkisstjórninni.
Kannski er til marks um nýjan tíma jafnt hjá stjórn og stjórnarandstöðu að Halla Hrund segir ánægjulegt að heyra nýjan ráðherra orkumála, Jóhann Pál Jóhannsson, Samfylkingu, lýsa yfir að orkuöryggi almennings verði forgangsmál í hans störfum.
Útfærslan á orkuöryggi almennings í lögum skiptir hins vegar miklu, að sögn Höllu Hrundar. Mikilvægt sé að stuðlað verði að hagkvæmu og stöðugu orkuverði fyrir almenning um allt land. „Rándýrt orkuöryggi yrði fljótt orkuöryggi sumra – ekki allra, og slíkt er ekki sanngjarnt eða líklegt til sátta. Leiðin sem valin verður getur haft áhrif á samfélagslega mikilvæga orkunotendur, svo sem garðyrkjubændur, sem þarf sérstaklega að styðja vegna mikilla verðhækkana,“ segir Halla Hrund í færslu á facebook.