Laun erlendra leikmanna á annan milljarð

Grímur Atlason, einn öflugasti stuðningsmaður Vals, skrifar ádrepu til forstöðumanna íþróttafélaga. Hann sakar suma þeirra um hreina hentistefnu.

Mogginn sló upp á forsíðu blaðsins í dag að skatturinn væri í rassíu gegn gerviverktöku hjá íþróttafélögum og stefndi í að sum þeirra færu á hausinn vegna aðgerðanna.

Grímur skrifar í færslu sinni á facebook að á sama tíma og íþróttahreyfingin ræki áróður fyrir því að skatturinn hætti við þau áform, megi sjá körfuboltalið á Íslandi á útopnu við að sækja fyrrverandi NBA leikmenn í lið sín.

„Körfuboltakvöldin tralla þetta upp og í viðtölum eru þjálfarar liðanna með glampa í augunum þegar þeir eru spurðir hvort þeir muni ekki bæta 5., 6., 7. eða 8. erlenda leikmanninum við hópinn fyrir miðnætti í kvöld,“ segir Grímur.

Hafi einhver haldið að Ísland sé enn Mekka áhugamannaliða en ekki atvinnumennsku, er sá hinn sami á villigötum eftir því sem fram kemur í færslu Gríms. Hann segir svo komið að yfir 150 erlendir leikmenn séu á launaskrá félaga í efstu tveimur deildum karla og kvenna.

„Þá eru ekki taldir þeir leikmenn sem liðin hafa skipt út á yfirstandandi tímabili en þeir eru fjölmargir og kostnaður við þær aðgerðir verulegur. Launakostnaður liðanna við erlenda leikmenn á ári er vel á annan milljarð. Þá á eftir að borga allt hitt: dómara, þjálfara, ferðakostnað, auglýsingar og gerviverktöku annarra leikmanna.“

Er eðlilegt og sanngjarnt að íþróttafélög, sem greiða erlendum leikmönnum milljónir í laun skattfrjálst á mánuði auk húsnæðis, bíls, máltíða, sjúkratrygginga, flugmiða og annarra gjalda, reyni allt til að koma í veg fyrir að íslenskir leikmenn njóti réttinda sem launþegar á t.d. 100.000 kr. sem þeir fá á mánuði fyrir að leika fyrir félagið? Spyr Grímur.

„Það er ekki skatturinn sem er að setja íslensk íþróttafélög á hausinn – forsvarsmenn þessara félaga sjá alfarið um það einir og óstuddir. Og eins og alltaf spila þeir almannaheillakortinu út þegar hentar og markaðskortinu þegar það hentar.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí