Grímur Atlason, einn öflugasti stuðningsmaður Vals, skrifar ádrepu til forstöðumanna íþróttafélaga. Hann sakar suma þeirra um hreina hentistefnu.
Mogginn sló upp á forsíðu blaðsins í dag að skatturinn væri í rassíu gegn gerviverktöku hjá íþróttafélögum og stefndi í að sum þeirra færu á hausinn vegna aðgerðanna.
Grímur skrifar í færslu sinni á facebook að á sama tíma og íþróttahreyfingin ræki áróður fyrir því að skatturinn hætti við þau áform, megi sjá körfuboltalið á Íslandi á útopnu við að sækja fyrrverandi NBA leikmenn í lið sín.
„Körfuboltakvöldin tralla þetta upp og í viðtölum eru þjálfarar liðanna með glampa í augunum þegar þeir eru spurðir hvort þeir muni ekki bæta 5., 6., 7. eða 8. erlenda leikmanninum við hópinn fyrir miðnætti í kvöld,“ segir Grímur.
Hafi einhver haldið að Ísland sé enn Mekka áhugamannaliða en ekki atvinnumennsku, er sá hinn sami á villigötum eftir því sem fram kemur í færslu Gríms. Hann segir svo komið að yfir 150 erlendir leikmenn séu á launaskrá félaga í efstu tveimur deildum karla og kvenna.
„Þá eru ekki taldir þeir leikmenn sem liðin hafa skipt út á yfirstandandi tímabili en þeir eru fjölmargir og kostnaður við þær aðgerðir verulegur. Launakostnaður liðanna við erlenda leikmenn á ári er vel á annan milljarð. Þá á eftir að borga allt hitt: dómara, þjálfara, ferðakostnað, auglýsingar og gerviverktöku annarra leikmanna.“
Er eðlilegt og sanngjarnt að íþróttafélög, sem greiða erlendum leikmönnum milljónir í laun skattfrjálst á mánuði auk húsnæðis, bíls, máltíða, sjúkratrygginga, flugmiða og annarra gjalda, reyni allt til að koma í veg fyrir að íslenskir leikmenn njóti réttinda sem launþegar á t.d. 100.000 kr. sem þeir fá á mánuði fyrir að leika fyrir félagið? Spyr Grímur.
„Það er ekki skatturinn sem er að setja íslensk íþróttafélög á hausinn – forsvarsmenn þessara félaga sjá alfarið um það einir og óstuddir. Og eins og alltaf spila þeir almannaheillakortinu út þegar hentar og markaðskortinu þegar það hentar.“