Flokkur fólksins hefur á facebook-síðu stjórnmálasamtakanna birt nokkra punkta um hvers megi vænta í félagslegum umbótum ríkisstjórnarinnar.
Flokkurinn hefur verið í nauðvörn undanfarið vegna ósamræmis í málflutningi, símtals formanns flokksins við skólameistara og hins svokallaða styrkjamáls. Formaður flokksins, Inga Sæland, vandar Mogganum ekki kveðjurnar er kemur að fréttaflutningi blaðsins undanfarið.
Fram kemur í tilkynningu Flokks fólksins á facebook að ríkisstjórnin sé á leið í bráðaaðgerðir til að fjölga íbúðum hratt. Ráðist verði í kerfisbreytingar til að ná fram jafnvægi á húsnæðismarkaði.
Einnig segir: „Ríkislóðir verða nýttar til uppbyggingar, liðkað verður fyrir uppbyggingu á færanlegum einingarhúsum og umbreytingu atvinnuhúsnæðis í íbúðir.“
Þá segir Flokkur fólksins að regluverk um skammtímaleigu verði endurskoðað og hlutdeildarlán verði fest í sessi með skilvirkari framkvæmd, staða leigjenda verði styrkt og stuðningur við húsnæðisfélög sem starfa án hagnaðarsjónarmiða verði aukinn.