Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, sakar foreldra um vanrækslu sem sinna ekki þörfum ungra barna sinna heldur rétta þeim símann til afþreyingar í tíma og ótíma.
Fyrstu 1000 dagar í lífi barns eru þeir mikilvægustu, segir Jón Pétur. Á þeim tíma verði gríðarlegar breytingar hjá barninu og margt endist alla ævi. „Þarna er grunnurinn að orðaforða og öllu námi lagður sem og andlegu atgervi og heilbrigði almennt.“
Fyrir barn og foreldra skiptir þessi tími öllu að sögn kennarans og þingmannsins.
„Þarna myndast tengsl sem auka líkur á jákvæðum þáttum í lífi barnsins fyrir lífstíð. Barnið býr við öryggi hjá foreldrum sínum sem tengjast barninu í leik, nánd og samtali.“
Hann mælir með lestri upphátt fyrir barnið frá nokkurra mánaða aldri.
„Innlögn í orðaforðabankann ber okurvexti sem skila sér endalaust inn í framtíðina.“
„Að geta tjáð sig í ræðu og riti opnar ótal dyr, eykur sjálfsvirðingu, sjálfstraust, styrkir sjálfsmynd og gerir þig mun meira aðlaðandi í hugum fólks.“
En hætturnar leynast víða, að sögn þingmannsins, ekki síst skjáhættan.
„Sumir hvítvoðungar eru farnir að horfa á litríka skjái þar sem myndir og hljóð fanga athyglina. Barnið þagnar og horfið dáleitt á skjáinn og það er eins og það hafi fengið rafræna snuddu upp í sig. Það skiptir ekki máli hvar fólk er. Það er að kaupa sér frið.“
Dæmi um aðstæðurnar eru að sögn Jóns Péturs:
Í strætó
Á matsölustöðum
Á íþróttakappleikjum
Á biðstofum
Í fermingarveislum/afmælum
í kaffi hjá afa og ömmu
Á kósýkvöldum
Við matarborðið
Svo heldur Jón Pétur áfram: „Alls staðar er samtali þessara fjölskyldna útrýmt og minningarnar sem ættu að verða til og skapa umræðugrundvöll seinna fá ekki að fæðast. Sameiginlegar upplifanir, þjálfun barna í að taka þátt í samfélaginu, þroskinn sem fæst með því að leiðast, orðaforðinn í samtölunum, þetta er allt tekið frá þeim og í staðinn fá þau dópamín skot sem kallar á enn meira skjááhorf sem skaðar barnið svo enn frekar.“
Afleiðingin:
„Þessi börn læra ekki að takast á við mótlæti, þau ávinna sér ekki þrautseigju, þau rekast ítrekað á önnur börn og fullorðna, þau mynda frekar með sér kvíða og jafnvel depurð, þau skilja heiminn verr en önnur börn og þau eru mun líklegri til að vera börnin sem fjallað er um að þau séu agalaus og kunni ekki að hegða sér í skólum og beiti ofbeldi.
Það er vanræksla að börn undir 3 ára aldri horfi á skjá snjalltækis nema að það sé vandað barnaefni á íslensku og fullorðinn horfi með og þá bara í stutta stund.“
Viðbúið er að tæpitungulaus greining Jóns Péturs muni mæta gagnrýni á sama tíma og aðrir fagna framlaginu. Hefur meðal annars verið rætt að aðstæður foreldra til að sinna börnum eins og best gæti orðið, séu ólíkar eftir efnahag, vinnuálagi, félagsstöðu og fleiri þáttum.