Hiti í kolum og vaxandi spenna fyrir landsfund

Hermt er að heiftúðugt stríð sé í uppsiglingu innan Sjálfstæðisflokksins milli stuðningshópa Guðrúnar Hafsteinsdóttur og Áslaugar Önnu Sigurbjörnsdóttur.

Heimildarmenn Samstöðvarinnar segja að barist sé um hvern einasta landsfundarfulltrúa. Enda kunni úrslitin að verða tvísýn þar sem aðeins örfá atkvæði kunni að ráða úrslitum.

Ágreiningur milli þessara tveggja fulltrúa sem vilja formannsstólinn virðist hafa pólaríserast síðustu daga ef marka má raddir innan flokksins.

Áslaug Arna er sögð hafa stigið fram sem „hreinn fulltrúi og stuðningsmaður stórútgerðarinnar“, eins og það var orðað inni í flokknum „hverra hagsmuna Mogginn gætir með skefjalausum áróðri“ eins og ein heimild orðar það. Þá sé Áslaug Arna ákveðin í að verja hag þeirra fjármagnseigenda í landinu sem nái máli.

Guðrún Hafsteins er fremur sögð fulltrúi smáfyrirtækjanna og einyrkjanna.  Henni er núið um nasir að hafa misst Suðurkjördæmi til Ástu Lóu sem nú er fyrsti þingmaður kjördæmisins í Flokki fólksins. En Guðrún leggur áherslu á eigin aldur og reynslu umfram Áslaugu Örnu sem líkt og svo margir sjallar tala gegn ríkisafskiptum en eru þó alla ævina háðir launagreiðslum úr hendi almennings.

Þegar Samstöðin spurði verðandi landsfundarfulltrúa í skjóli nafnleyndar hvernig þeir teldu að úrslitin yrðu, nefndu ívið fleiri Guðrúnu sem líklegri formann. Einkum ef flokkurinn ætti að dafna og „fá á sig minni spillingarásjónu“ eins og ein heimild orðar það.

Þá nefna sumir að slúður trufli einstaka flokksmenn en það  þykir mjög ómálefnalegt að ræða auk þess sem enginn veit hvað sé satt og logið. Heyrist að kynjajafnrétti sé ekki náð hér á landi,  þótt allir helstu oddvitar sem leitt hafa pólitíska meirihluta til valda undanfarið séu konur.

Jens Garðar Helgason, nýr þingmaður að austan, og Áslauga Arna eru sögð  ganga saman  í takt. Jens Garðar gætir hagsmuna sjávarútvegarins og einkum öflugustu fyrirtækjanna og sumra þeirra umdeildustu. Heyrst hefur að hann hyggist bjóða sig fram sem varaformann og að þau Áslaug Arna hafi bundist böndum til að ná völdum saman.

Ótti er innan raða Sjálfstæðisflokksins um að þau tæpu tuttugu prósent sem enn styðja þessa fyrrum breiðfylkingu, leiti í framsókn eða Miðflokk vegna þess hve stemmingin varð súr undir stjórn Bjarna Ben sem hefur nú hrökklast burt eftir hrinu hneykslismála og stórfellda ósigra. Sumir segja að ekkert lát sé á misfellum og vandræðagangi og „þurfi að lofta enn frekar út“. Aðrir eru bjartsýnni.

„Það glittir vonandi í dagrenningu fyrir þessa merkilegu stofnun eftir langan kafla myrkurs,“ segir gamall sjálfstæðismaður sem Samstöðin ræddi við og viðurkennir að flokksmenn hafi haft um nóg að hugsa síðustu misseri í sjálfsgagnrýnu tilliti.

Sennilega verður svo áfram. Víst er að mörgum sjöllum svíður mjög að hafa hvorki völd í meirihluta á Alþingi né í Reykjavík. Ekki alls fyrir löngu gat flokkurinn bókað allt að 60 prósenta fylgi í borginni og 40 prósent á landsvísu en nú er hún Snorrabúð stekkur eins og þar segir.

Landsfundurinn hefst eftir 15 daga – 28. febrúar. Kemur þá í ljós hvort Guðrún Hafsteins eða Áslaug Arna leiðir sjálfstæðismenn inn í nýja tíma.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí