Segir biðlaunin tímabundna afkomutryggingu

Ragnar Þór Ingólfsson, þingmaður Flokks fólksins, hefur svarað fyrir fréttir sem fluttar voru í morgun af biðlaunum hans hjá VR á sama tíma og hann er á launum sem þingmaður.

Mogginn birti frétt um að Ragnar hafi þegið 10 milljónir í biðlaun hjá VR á sama tíma og hann fái laun hjá Alþingi.

Dæmi eru um að þingmenn afsali sér biðlaunum við sambærilegar aðstæður en dæmi eru einnig um að þingmenn þiggi slíkar greiðslur líkt og þegar Kristján Þór Júlíusson tók biðlaun frá Akureyrarbæ eftir að hafa verið bæjarstjóri þar á sama tíma og hann fór inn á Alþingi.

Vísir segir að hluti stjórnar VR hafi viljað fjalla um eingreiðslu til Ragnars á fundi í gær.

Í tilkynningu Ragnars Þórs segir að hann hafi oft lækkað laun sín undanfarið og meti það sem svo að launalækkun hans á átta árum í formennsku VR og sex árum í LÍV nemi yfir 40 milljónum króna. Þá sé ekki rétt að biðlaunin nemi 10 milljónum heldur átta milljónum króna.

„Ástæða þess að við hjónin ákváðum að halda biðlaunum er fyrst og fremst sú að ég hef litið á biðlaunin sem mjög tímabundna afkomutryggingu, þar sem forystufólk í verkalýðshreyfingunni hefur jafnan átt erfitt uppdráttar á vinnumarkaði eftir starfslok.

Þar sem starfið felst í grunninn um aðhald gegn samtökum atvinnulífsins og fleiri samtökum sérhagsmuna. Þeir formenn sem hafa gengið harðar fram en almennt þekkist eru því í veikari stöðu með framtíðar atvinnu en aðrir og eru fjölmörg dæmi um það,“ segir Ragnar Þór í yfirlýsingu.

Sigurður G. Guðjónsson lögmaður segir á facebook að Ragnar Þór Ingólfsson sé eins og svínin í Dýrabæ.

„Tekur mikið til sín af félagsmönnum í VR og skattgreiðendum samtímis. Er jafnari en aðrir launþegar.“

Egill Helgason fjölmiðlamaður er á allt annarri línu og segir um töku biðlaunanna: „Stormur í vatnsglasi.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí