Snorra Ásmundssyni listamanni hefur borist bréf frá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem staðfestir að sögn Snorra að hann fái að flytja framboðsræðu um næstu helgi þegar sjálfstæðismenn velja sér nýjan formann.
Óvíst var um tíma hvort Snorri kæmist yfirhöfuð inn á fundinn.
Frambjóðendur til formanns munu halda ræður sínar á laugardegi og hefjast eldmessurnar kl. 14:30. Guðrún Hafsteinsdóttir talar fyrst, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er næst og Snorri þriðji. Ræðutími verður 20 mínútur.
„Þú ert ekki með seturétt sem landsfundarfulltrúi nema vera það samkvæmt skipulagsreglum (kjörinn af félagi eða fulltrúaráði eða þá í gegnum flokksráð) en ég ætla að skoða hvort sé einhver leið að útvega þér gestapassa á fundinn,“ skrifar Ingvar P. Guðbjörnsson í svarbréfi til Snorra að því er Snorri heldur fram.
Snorri segir í samtali við Samstöðina að hann sé ánægður að fá að halda framboðsræðu, enda hafi hann gaman að því að halda ræður.
„Ég er framúrskarandi ræðumaður og ræðan verður mikil áskorun því hún er eiginlega eina tækifærið sem ég hef fengið til að tala til sjálfstæðismanna fyrir utan þær greinar sem hafa verið birtar á nokkrum fjölmiðlum.“
Snorri segir að honum hafi verið haldið frá umræðum eins og kappræðum formannsframbjóðenda án mótmæla hinna frambjóðendanna tvegga.
„Lýðræðið sigrar! Auðvitað sigra ég svo formannskosninguna og það hef ég vitað lengi,“ segir Snorri.