Kolbeinn Tumi Daðason, fréttastjóri fjölmiðla Sýnar, segir að starfsfólki þyki mjög leiðinlegt að hafa í tvígang þurft að taka skoðanagrein úr birtingu á Vísi með vísan í reglur um sannleikgildi staðhæfinga.
Samstöðin sendi fréttastjóranum fyrirspurn vegna umræðu um hvers vegna gagnrýnin skoðanagrein eftir Björn B. Björnsson um Rapyd og ítök fyrirtækisins í hernaði hafi verið tekin úr umferð – um viku eftir að greinin var fyrst birt. Kenningar hafa verið á lofti um auglýsingahagsmuni og fleira og hafa meðal annars fyrrverandi þingmenn spurt Sýn gagnrýninna spurninga á samfélagsmiðlum.
Kolbeinn Tumi segir að í Rapyd tilvikinu hafi greinarhöfundur brugðist við fjölmörgum spurningum og fengið greinina birta á nýjan leik. Eftir hafi þó staðið atriði „sem við töldum ekki uppfylla skilyrði okkar um sannleiksgildi staðhæfinga,“ segir Kolbeinn Tumi.
„Fyrir vikið ákváðum við að taka breytta grein úr birtingu. Greinarhöfundi stendur til boða að bregðast við athugasemdum okkar varðandi þau atriði sem við töldum til svo hún uppfylli skilyrði okkar.“
Eftir stendur að Vísir hefði viljað taka málið föstum tökum strax í byrjun að sögn fréttastjórans, „enda bagalegt að standa í því að taka skoðanagreinar úr birtingu“ eins og hann orðar það í svari sínu.
„Þú spyrð hvort einhverjir viðskiptahagsmunir séu að baki ákvörðuninni en ég get fullvissað þig um að engir slíkir hagsmunir koma við sögu í þessu ferli. Engar kröfur frá neinum auglýsendum eða neitt slíkt.“
Þá segir fréttastjórinn ágætt að minna á að Vísir hafi birt fjölda greina um átök Hamas og Ísrael frá fólki með ólíkar skoðanir og muni halda því áfram.