Gæði Rúv ekki í samræmi við fjármagn

Fjölmenni kom saman á fundi Viðskiptaráðs sem kynnti skýrslu um fjölmiðla síðdegis í gær á Kjarval í miðborginni. Mátti heyra á fundarfólki að því þætti sláandi að síðastliðin ár hefði Rúv fjölgað starfsmönnum á sama tíma og einkareknir fjölmiðlar lepja dauðann úr skel.

Starfsmönnum hefur fækkað í einkageiranum um mörg hundruð manns. Virðist ekki endilega sem samband milli opinberra fjárveitinga, nýsköpunar og gæða eða magns framleiðslu sé fyrir hendi. Margir velunnarar og áskrifendur hafa sem dæmi lýst Samstöðinni sem áhugaverðasta framtaki síðari ára í fjölmiðlaheiminum. Opinbert framlag til Samstöðvarinnar er sex milljónir króna. Það er eins og dropi í hafið miðað við alla þá dagskrá sem unnin er daglega. Ríkisútvarpið hefur á sama tíma úr 9,2 milljörðum króna að spila og er rekið með halla.

Þau sem ræddu skýrsluna í Pallborði að lokinni framsögu í gær voru ekki á einu máli um aðgerðir.

Öll þrjú, blaðamaður Moggans, fréttastjóri Stöðvar 2, Bylgjunnar og verktaki á Rúv, sögðust þó sammála um að gera þyrfti breytingar á auglýsingaharki Ríkisútvarpsins. Sem hegðar sér líkt og hrægammur á einkamarkaði eftir því sem fram kom.

Samkvæmt skýrslu Viðskiptaráðs myndu um 800 milljónir dreifast af auglýsingatekjum á einkarekna miðla innanlands ef Rúv væri tekið af auglýsingamarkaði.

Þá var rætt að þrátt fyrir alla peningana reki Rúv aðeins þriðja mest lesna fréttavef landsins á eftir Vísi og mbl.is. Opinber framlög Rúv eru eigi að síður um 60 sinnum hærri en Sýn og Morgunblaðið fá í fjölmiðlastyrki. Rúv var einnig sagt með alls konar gæluverkefni í gangi. Rætt var um ofmönnun og endurflutt efni.

Stefán Einar Stefánsson, blaðamaður Moggans, hélt fram að þegar hann hefði verið kallaður til spjalls á Rúv á dögunum hefði hann sjálfur ætlað að setja á sig hljóðnema. En ríkisstarfsmennirnir í kring sögðu honum að gera það ekki, sérstakur maður kæmi til að setja á hann hljóðnemann. Svo kom maður eins og út úr skáp, festi hljóðnemann en hvarf svo að sögn Stefáns Einars. Gerði bara þetta.

Klappað var fyrir Stefáni Einari í salnum þegar hann lét vaða á súðum og gerði sem mest grín að ríkisstyrktum kollegum sínum.

Þá voru þau sem ræddu saman í pallborðinu sammála um að aðrir miðlar en Rúv hefðu skorað hærra en rúvarar hjá landsmönnum fyrir síðustu þingkosningar sem sýndi að eki væri endilega samband milli gæða og fjárausturs.

Þá var það kallað „veruleikafirring“ hjá útvarpsstjóra að halda fram að Rúv væri þröngur stakkur sniðinn fjárhagslega. 250 milljóna króna halli er á starfsemi Rúv en vaxandi vilji er meðal þingmanna um að landsmenn fái að ráðstafa nefskatti sínum að vild það er að skylduáskrift að Rúv geti að hluta breyst í stuðning til annarra einkarekinna fjölmiðla.

Einnig kom fram að staða Rúv er í samanburði við ríkismiðla hinna Norðurlandanna allt of ráðandi hér á landi.

Verður fróðlegt að sjá hvort eða hvernig stjórnvöld bregðast við þeirri mögulegu sviðsmynd að í framtíðinni muni annars vegar aðeins vinir Stefáns Einars, ólígarkar sem gefa út Morgunblaðið, og hins vegar ríkisstarfsmenn sjá um fréttir, dagskrárgerð og opinber pólitísk skoðanaskipti í landinu.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí