Blaðamannafélag Íslands hefur sent bréf til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis þess efnis að ákveði nefndin að taka fyrir mál í tengslum við fjölmiðlaumfjöllun um framferði starfsfólks Samherja á árinu 2021 þurfi nefndin að beina sjónum sínum að viðbrögðum lögreglu í málinu og rannsókn hennar á þeim sex blaðamönnum sem fengu réttarstöðu sakbornings.
Þetta upplýsir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Félagið telur tilefni til að árétta það sérstaklega að hlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er að hafa eftirlit með störfum framkvæmdarvaldsins í þágu almennings, að því er fram kemur hjá Sigríði Dögg. „Nefndin hefur ekki eftirlit með fjölmiðlum og það er ekki hlutverk hennar að hafa skoðun á efnistökum þeirra. Hins vegar á nefndin að gæta að því að handhafar framkvæmdarvalds, þ.m.t. lögregla, haldi sig innan marka stjórnarskrárinnar. Eins og Blaðamannafélagið hefur bent á leikur verulegur vafi á því að það hafi lögregla gert í þessu máli. Félagið telur því fulla ástæðu til að þessi þáttur málsins sæti athugun nefndarinnar í samræmi við það hlutverk sem hún fer með samkvæmt lögum,“ segir formaður Blaðamannafélags Íslands, Sigríður Dögg.
Vilhjálmur Árnason, ritari Sjálfstæðisflokksins og þingmaður, er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.