Segir útgerðina hafa haft þjóðina að fíflum allt of lengi

„Það er átakanlega dapurt – og dálítið hákátlegt – að sjá áróður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi gegn eðlilegum veiðigjöldum sem miðast við raunverulegt verð sjávarafla á frjálsum markaði,“ skrifar Gauti B. Eggertsson hagfræðiprófessor í Brown University á Facebook-síðu sína.

„En þau vildu ekki greiða gjöld sem endurspegla markaðsverð fisks. Lausnin? Þau stofnuðu eigin vinnslustöðvar og seldu sjálfum sér fiskinn á hálfu verði – og greiddu þannig aðeins helming veiðigjalda,“ bendir Gauti á.

Og heldur áfram: „Nú segjast þau ekki lengur geta selt fiskinn til eigin vinnslustöðva á raunverulegu verði? Að þau neyðist til að selja til annarra? Eru þau í raun að játa að vinnslustöðvarnar hafi eingöngu verið stofnaðar til að komast hjá veiðigjöldum – að um sé að ræða hreina fjárböðun?

Og hvað með sjómennina? Laun þeirra eru tengd verði aflans – verði sem útgerðarfélögin ákveða sjálf. Þannig losa þau sig bæði við veiðligjöld og launagreiðslur í samræmi við verðmæti aflans.

Þetta bitnar á launum sjómanna, tekjum sveitarfélaga sem reiða sig á launaskatt – og samfélaginu öllu. Útgerðarmenn hafa löngu sýnt að þeir teygja sig eins langt og þeir geta til að komast hjá því að borga til samfélagsins – og fela svo ágóðann í Panama eða öðrum fjármálaparadísum.

Þetta fáránlega fyrirkomulag er svo réttlætt með einhverri veiðireynslu frá 1984. En hún var eiginlega engin – því innan við áratug áður höfðum við loks fært landhelgina út í 200 mílur. Aldalöng veiðireynsla á auðlindinni okkar var ekki í höndum þessara aðila. Hún gaf þeim engan hefðarrétt, þrátt fyrir þá í Sjálfstæðisflokknum sem reyna að telja okkur trú um annað. Veiðireynslan var að mestu hjá veiðimönnum í Hull og víðar – en ekki hjá kvótagreifunum, hvað þá annarri, þriðju eða fjórðu kynslóðu þeirra. Og það var ekki útgerðarmönnum að þakka að landhelgin var færð út – það var barátta þjóðarinnar allrar.

Svo má velta fyrir sér hverjir þessir upphaflegu „útgerðarmenn“ voru eiginlega. Þetta var fólk sem fékk fyrirgreiðslu frá ríkisbönkum, reknir á pólitískum forsendum helmingaskiptastjórna Framsóknar og Sjálfstæðisflokks – þar sem lán voru veitt til skipakaupa samkvæmt pólitískum tengslum. Eða fólk með rétta tengingar sem tóku yfir báta sem reknir voru á vegum sveitafélaga, samvinnufélaga osfrv, fyrir slikk.

Hámark lágkúrunnar er þegar þessi svikamylla bitnar á þeim sem vinna raunverulegt starf – konum og körlum út á bátunum, sem oft setja eigið líf í hættu við að veiða fiskinn. Á meðan situr þriðja kynslóð kvótaerfingja – sem fæst hefur pissað í saltan sjó – að gæða sér á kavíar og kampavíni. Afi og amma fengu úthlutað kvóta sem áður hafði verið nýttur af Englendingum og öðrum – og það í gegnum pólitísk tengsl við banka og aðra.

Útgerðarmenn selja fiskinn sjálfum sér á niðurgreiddu verði – og borga hvorki samfélaginu né sjómönnunum það sem þeim ber. Svo er ágóðanum komið undan, jafnvel með því að halda tekjum erlendis og fela þær í skattaskjólum.

Hver ber ábyrgð? Hvenær ætla sjómenn – og fólkið sem stundar raunverulega vinnu við auðlindina okkar – að segja: Hingað og ekki lengra?

Stjórnvöld eru loksins búin að berja í borðið. Það var kominn tími til. Sjómenn og landsbyggðarfólk eiga að gera það sama. Það er búið að hafa þjóðina að fíflum allt of lengi.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí