Skömm á Teslu rafbílum vex dag frá degi, ekki bara í nágrannalöndum þar sem sala hefur hríðfallið heldur einnig hér innanlands. Orsökin er framganga Musk, sem á Teslu-fyrirtækið er hann er nú hluti af stjórnarfari Bandaríkjanna ásamt Donald Trump Bandaríkjaforseta og hefur fengið drjúgan hluta íbúa jarðarinnar upp á móti sér. Þar á meðal unnendur rafbíla.
Guðmundur Andri Thorsson, fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar, ræðir málið í færslu á facebook. Hann segist gegn sniðgöngu.
„Af hverju ætti ég að sniðganga Teslu til að lýsa vanþóknun mína á Elon Musk?“ Spyr Guðmundur Andri. „Ekki hannaði hann þennan bíl eða fann upp tæknina að baki honum, heldur keypti hann sig inn í fyrirtækið þegar það var komið á veg. Hvaða lærdóma mun hann draga af samdrætti á sölu á Teslu? Að ekki borgi sig að framleiða slíka bíla. Vil ég að öflugur fjárfestir og valdamaður á borð við hann hugsi að það borgi sig greinilega frekar að halda áfram að nýta olíu? Nei. Reyndar á ég ekki Teslu því að hún er of dýr fyrir mig – og kannski einhver montrassabragur á bílnum – en ég er almennt lítill sniðgöngmaður,“ segir Guðmundur Andri.
Hjálmtýr Heiðdal bendir á að einhversstaðar verði andófið að byrja.
„Kapitalistar hugsa um hagnað. Sjáðu hvernig andófið gegn Rapyd hefur gengið – þeir viðurkenna miljarða tap vegna sniðgöngunnar hér á landi. Tesla er tákn og það er fjöldi annarra rafbíla í boði. Ekki kaupa Teslu! Einfalt. Og sala á Teslu hrynur víða.“
Og Gunnar Smári Egilsson blaðamaður skrifar:
„Fæstir rafmagnsbílar sem eru seldir eru Teslur. Þótt fólk hætti að kaupa Teslur hægir ekkert á rafbílavæðingu. Tesla skiptir engan máli, nema helst fyrir Musk. Þær skapa honum auð og stöðu sem hann notar til að kaupa sér völd innan bandarísks ríkisvalds og rödd á twitter. Þau sem neita sér um Teslur, sem er það auðveldasta í heimi, vilja koma í veg fyrir þann óligarkisma sem er að éta upp og brjóta niður samfélögin. Það er verðugt verkefni og til að ná árangri þarf margar aðgerðir.“